Greinandi Akkurs telur talsverð tækifæri liggja í þróunareignum Reita.
Greiningarfyrirtækið Akkur metur markgengi (e. target price) fasteignafélagsins Reita í lok ársins á 175 krónur á hlut sem er 56% yfir núverandi 112 króna hlutabréfaverði félagsins.
Í frumskýrslu Akkurs segir að tekjur af þróunareignum Reita geti orðið verulegar í framtíðinni. Bókfært virði þróunareigna er í dag um 18 milljarðar króna eða rúmlega 24% af markaðsvirði félagsins.
Tekið er fram að sjóðstreymismatið horfi aðeins til núverandi útleigusafns ásamt þeim fjárfestingum sem félagið hafi kynnt sérstaklega. Þá sé reynt að leggja mat á virði annarra þróunareigna sérstaklega.
Núverandi verðlagning Reita jafngildir aðlöguðum EV/EBITDA margfaldara upp á 15,3x samkvæmt mati Akkurs.

Markaðsvirði Reita nemur í dag 77,1 milljarði króna. Eignir félagsins voru bókfærðar á 238,8 milljarða króna í lok júní og eigið fé var um 71,7 milljarðar. V/I hlutfall félagsins stóð í 1,08 í gær.
Heimild: Vb.is