Home Fréttir Í fréttum Þurfa að færa rúman kílómetra af nýlögðum rörum sem reyndust of nálægt...

Þurfa að færa rúman kílómetra af nýlögðum rörum sem reyndust of nálægt flugvelli

37
0
Skólphreinsistöðin er í byggingu við Melshorn á milli Egilsstaða og Lagarfljóts. Úr henni og út í fljót liggur umrædd skólplögn sem nú þarf að færa með talsverðum kostnaði. RÚV – Rúnar Snær Reynisson

HEF veitur þurfa að færa nýja og ónotaða 1200-1300 metra langa skólplögn fjær Egilsstaðaflugvelli. Í ljós kom að hún þrengir að stækkun flugvallarins.

Ný lögn sem á að flytja skólp frá Egilsstöðum út í Lagarfljót er á óheppilegum stað nærri Egilsstaðaflugvelli. ISAVIA ætlar að stækka flugvöllinn með akstursbraut samhliða flugbraut og við hönnun og skipulag reyndist nýja skólplögnin liggja of nærri stækkuðu flugvallarsvæði.

HEF-veitur þurfa því að grafa upp 1200-1300 metra af samansoðnum plaströrum og færa fjær flugvellinum. Heppilegt er að lögnin hafði ekki verið tekin í notkun og því er verkið þrifalegra.

Tölvumynd af fyrirhugaðri skólphreinsistöð á milli Egilsstaða og Lagarfljóts.

Lögnin á að flytja skólp út í Lagarfljót úr nýrri skólphreinsistöð sem er í smíðum við Melshorn og á að komast í gagnið um áramót.

Samkvæmt upplýsingum frá HEF-veitum er ekki komið á hreint hver ber kostnaðinn af því að flytja lögnina. Henni var á sínum tíma fundinn staður í samráði við ISAVIA sem bauðst að gera athugasemdir.

Akstursbrautin við flugvöllinn verður byggð í þremur áföngum en beðið eftir nýrri samgönguáætlun. Þar verður innkomu af varaflugvallargjaldi útdeilt í framkvæmdir á flugvöllum.

Heimild: Ruv.is