
Armar veltu rétt tæplega fjórum milljörðum króna á síðasta rekstrarári.
Armar ehf., sem sérhæfir sig í útleigu vinnuvéla og tengdum rekstri, skilaði 851 milljóna króna hagnaði á árinu 2024. Þetta er lækkun frá 2023 þegar hagnaðurinn nam 932 milljónum. Rekstrartekjur jukust lítillega og eigið fé samstæðunnar styrktist um tæpan milljarð.
Samkvæmt nýbirtum ársreikningi námu rekstrartekjur samstæðunnar 3.993 milljónum króna, samanborið við 3.877 milljónir árið áður
Eins og áður sagði nam hagnaður samstæðunnar 851 milljónum króna á síðasta rekstrarári. Þetta þýðir að á þremur rekstrarárum, frá 2022 til og með 2024, hafa Armar hagnast samanlagt um 2,6 milljarða króna.
Heildareignir samstæðunnar námu 8.676 milljónum í árslok 2024 samanborið við 7.940 milljónir árið áður. Skuldir voru nánast óbreyttar á milli ára, 4.163 milljónir í lok árs 2024 miðað við 4.129 milljónir í lok 2023. Þar af voru langtímaskuldir 1.844 milljónir, að mestu vegna kaupleigusamninga á vinnuvélum.
m
Verðmætasta dótturfélagið
Armar eiga sex dótturfélög. Armar vinnulyftur ehf. er stærsta dótturfélagið en bókfært verð þess var 2,4 milljarðar króna um síðustu áramót. Bókfært verð næst stærsta dótturfélagsins, Armar mót og kranar ehf. var milljarður króna.
„Armar ehf. og dótturfélög hafa náð góðum árangri á undanförnum árum og má vænta þess að svo verði áfram að öllu óbreyttu en ekki eru fyrirhugaðar breytingar á starfsemi samstæðunnar í nánustu framtíð,“ segir í skýrslu stjórnar. „Velgengni samstæðunnar byggist að miklu leyti af stöðu byggingageirans hverju sinni.“
Auðunn S. Guðmundsson er eigandi Arma ehf. Hann er sjálfur skráður fyrir 65% í félaginu og á svo 35% í gegnum LMP3 ehf. Stjórn félagsins ákvað að enginn arður yrði greiddur út vegna síðasta rekstrarárs.
Heimild: Vb.is