
Dómsmálaráðherra segir slæma stöðu í fangelsismálum hafa teiknast upp á löngum tíma. Verið sé að grípa til markvissra aðgerða sem taki tíma en einnig verið að bregðast við því sem hægt er strax með aukafjármagni.
Forstöðumenn tveggja fangelsa, öryggisstjóri Fangelsismálastofnunar, Fangavarðafélag Íslands og Afstaða sendu frá sér yfirlýsingu þar sem slæmu, viðvarandi ástandi fangelsismála er lýst. Fangelsin eru yfirfull og dómar fyrnast á meðan bið eftir afplánun lengist.
Erfitt sé að tryggja öryggi innan fangelsanna og uppbygging hafi setið á hakanum í áratugi. Þá var gagnrýnt að stofnfjárframlag til byggingar nýs fangelsis hefði verið lækkað.
Yfirlýsing vegna stöðu fangelsismála í heild sinni
Ástand fangelsismála óásættanlegt
Fangelsismál á Íslandi eru í langvinnri kerfislægri krísu, dómar fyrnast á sama tíma og boðunarlistar lengjast. Ástand fullnustukerfisins einkennist af langvarandi vanfjármögnun, ófullnægjandi innviðum og aukinni öryggisáhættu gagnvart bæði föngum og starfsfólki. Þrátt fyrir viðvaranir frá bæði eftirlitsaðilum og stofnuninni sjálfri í áratugi hefur nauðsynleg uppbygging setið á hakanum, og nú hefur verið tilkynnt að gert sé ráð fyrir að stofnfjárframlag til byggingar á nýju öryggisfangelsi að Stóra-Hrauni á Suðurlandi lækki tímabundið um 400 milljónir króna árið 2025.
Fangelsið að Litla-Hrauni hefur ítrekað hlotið gagnrýni fyrir óviðunandi húsnæðisaðstöðu sem hvorki uppfyllir öryggiskröfur né skilyrði um mannúðlega vistun. Ríkisendurskoðun og umboðsmaður Alþingis hafa jafnframt bent á að aðbúnaður fanga og starfsfólks sé heilsuspillandi, faglega óviðunandi og hamli framkvæmd laga um fullnustu refsinga.
Fangelsið á Hólmsheiði var reist sem móttökufangelsi með aðstöðu fyrir gæsluvarðhaldsfanga. Þar átti áherslan að vera á skammtímavistun og mat á vistunarþörf áður en fangar yrðu fluttir áfram. Vegna skorts á úrræðum og aðstöðu annars staðar í kerfinu hefur Hólmsheiði hins vegar í auknum mæli verið notað sem langtímavistunarúrræði. Þessi þróun skerðir getu fangelsisins til að sinna sínu upprunalega hlutverki, eykur álag á starfsfólk og dregur úr sveigjanleika fangelsiskerfisins í heild.
Starfsfólk fangelsa hefur undanfarin misseri þurft að takast á við sífellt flóknari skjólstæðingahóp og fjölgun þungra ofbeldismála. Ofbeldi gegn fangavörðum hefur aukist og nýlega þurftu fangaverðir aðstoð sérsveitar vegna ástands sem skapaðist í fangelsinu Litla-Hrauni. Öryggisrými eru fullnýtt og ekki unnt að aðskilja fanga með ólíkar meðferðar- og öryggisþarfir, sem eykur hættu á átökum og ófyrirséðum atvikum.
Uppbygging nýs öryggisfangelsis á Stóra-Hrauni er bæði tímabær og brýn. Ríkið á þegar landið og skipulagsmálum er lokið. Samfélagið í nágrenninu hefur aðlagað sig að fangelsisrekstri og starfsfólk með þekkingu og reynslu er til staðar. Ný og nútímaleg aðstaða myndi skapa skilyrði fyrir stigskipta vistun, sérhæfingu, aukið öryggi og faglegri þjónustu.
Skortur er á viðeigandi heilbrigðis- og geðheilbrigðisþjónustu innan fangelsiskerfisins og meðferðar- og endurhæfingarúrræði eru takmörkuð. Skert aðgengi að menntun og úrræðum dregur jafnframt úr líkum á árangursríkri betrun og samfélagslegri endurkomu fanga.
Brýnt er að auka menntun og endurmenntun fangavarða svo þeir geti sinnt margþættu og oft flóknu starfi með fagmennsku, öryggi og umhyggju að leiðarljósi. Slíkt er lykilforsenda þess að fangelsiskerfið gegni hlutverki sínu.
Málaflokkurinn hefur um árabil búið við skertar fjárheimildir, húsakostur er úreltur og úrræði af skornum skammti, allt með þeim afleiðingum að öryggi starfsfólks og fanga er stefnt í hættu og virkni kerfisins skert til muna.
Við skorum á stjórnvöld að tryggja markvissa og nægilega fjármögnun og móta skýra framtíðarsýn um faglegt, öruggt og mannúðlegt fullnustukerfi. Það er forsenda þess að íslenskt réttarríki standist alþjóðleg viðmið og samfélagslegar skyldur.
Fangavarðafélag Íslands, Afstaða, til ábyrgðar, Forstöðumaður Litla-Hrauns, Forstöðumaður Hólmsheiðar, Öryggisstjóri Fangelsismálastofnunar.
Forstöðumaður Litla-Hrauns lýsti erfiðum aðstæðum í fangelsinu í kvöldfréttum á laugardag.
Viðbótarfjármagn til að bregðast við strax
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra segir að þó stofnfjárframlag til byggingar Stóra-Hrauns hafi verið lækkað tímabundið sé fjármagn þó tryggt til að hefja framkvæmdir – við jarðvegsvinnu.
Gripið hafi verið til aðgerða sem bíta strax. „Þess vegna er ég að setja aukafjármagn í fangelsismálin núna, 230 milljónir, til að auka öryggi inni í fangelsunum og geta tekið betur utan um fangavarðanám en verið hefur,“ segir hún. Hægt er að lesa meira um fjárveitingar til öryggismála í nýrri tilkynningu á vef dómsmálaráðuneytisins.
Forstöðumaður Litla-Hrauns sagði að það myndi ekki leysa vandann að fá eitt nýtt fangelsi, hann væri miklu stærri og margþættari en það. Nýja heildarstefnu þyrfti í málaflokknum.
Ríkisstjórnin vinni að heildarstefnu í málaflokknum
Þorbjörg segir að verið sé að taka markviss skref í nýrri heildarstefnu. Fjölgun lögreglumanna og stofnun brottfararstöðvar fyrir útlendinga sem neita samvinnu við brottvísun, spili inn í þær áætlanir. Þá verði reynt að koma erlendum föngum í afplánun í heimalandi í meiri mæli. Einnig er hafin vinna við að koma á laggirnar sérstakri öryggisvistun sem og að fjölga rýmum á öryggisgeðdeild.
Stórar aðgerðir sem taka tíma
„Þetta eru markvissar aðgerðir, þetta eru stórar aðgerðir en þær taka tíma,“ segir Þorbjörg.
„En ég myndi segja að ástæðan sé sú að fangelsismál á Íslandi hafa því miður ekki fengið þá athygli sem þau eiga skilið og við okkur blasir núna áralangt vandamál og afleiðingar af því,“ segir hún.
„Ég get ekki gert annað en að bregðast við og er nú þegar að gera það bæði með aðgerðum til skemmri tíma og til lengri tíma,“ segir Þorbjörg.
Heimild: Ruv.is