Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi 15 nýjar íbúðir heilmikil viðbót fyrir 1200 manna sveitarfélag

15 nýjar íbúðir heilmikil viðbót fyrir 1200 manna sveitarfélag

14
0
Sveitarstjóri segir mikla uppbyggingu hafa verið í sveitarfélaginu allt frá árinu 2018. RÚV – Kristófer Óli Birkisson

Mikil íbúðauppbygging er á Hvammstanga um þessar mundir. Fimmtán íbúðir rísa á tveimur stöðum í bænum. Sveitarstjóri segir það mikinn fjölda í tólf hundruð manna sveitarfélagi. Um helmingur allra íbúa sveitarfélagsins býr á Hvammstanga.

Mikil uppbygging hefur verið á Hvammstanga síðustu ár eða allt frá árinu 2018, að sögn Unnar Valborgar Hilmarsdóttur, sveitarstjóra Húnaþings vestra. Fréttastofa sagði frá því í vetur að til stæði að hefja framkvæmdir á félagsheimili bæjarins.

Húnaþing vestra er rúmlega 1200 manna sveitarfélag. Þar af býr um helmingur í búa á Hvammstanga.
RÚV / Kristófer Óli Birkisson

Nú má einnig sjá fimm íbúða raðhús taka á sig mynd ofarlega í bænum sem að sögn sveitarstjóra er í höndum verktaka frá Reykjavík. Neðar í bænum er svo kominn grunnur að tíu íbúða fjölbýlishúsi.

Af íbúðunum tíu eru tvær ætlaðar í almenna sölu og hinar átta til útleigu hjá leigufélaginu Brák.

Húsnæðisskortur hefur verið á Hvammstanga, eins og víðar, síðustu ár. Unnur segir það því mikið fagnaðarefni fyrir rúmlega 1200 manna sveitarfélag að 15 íbúðir bætist við. Rúmlega helmingur allra íbúa sveitarfélagsins búi á Hvammstanga.

Unnur Valborg
RÚV / hunathing.is

„Hér eru síðan að minnsta kosti tvö einbýlishús í byggingu og búið að úthluta lóðir fyrir fleiri íbúðir. Þannig að hér er mjög mikið í gangi í húsnæðisuppbyggingu.“

Heimild: Ruv.is