Stjórn Steypustöðvarinnar leggur til að allt að 400 milljónir króna verði greiddar í arð.
Steypustöðin ehf. skilaði 535 milljóna króna hagnaði árið 2024, sem er tæplega 26% minni hagnaður en árið áður þegar hann nam 720 milljónum króna.
Tekjur félagsins námu ríflega 13,2 milljörðum króna og drógust saman um 3,2% frá árinu 2023. Eigið fé stóð nánast í stað en það nam 3 milljörðum króna um síðustu áramót.
„Velta félagsins dróst nokkuð saman á árinu vegna minni umsvifa verklegra framkvæmda í landinu, sér í lagi í efnisvinnslu fyrir hið opinbera, en rekstur félagsins sveiflast nokkuð með umsvifum verkframkvæmda,“ segir í skýrslu stjórnar.
„Óvissa í efnahagsumhverfinu getur haft áhrif á umsvif verklegra framkvæmda, bæði til aukningar og samdráttar, og þar af leiðandi haft áhrif á rekstur félagsins.
Núverandi verkefnastaða félagsins gefur til kynna að áhrif af óvissu í efnahagsumhverfinu hafi ekki veruleg áhrif á rekstur félagsins. Líkur eru á að góður gangur verði í mannvirkjaframkvæmdum bæði hjá einka- og opinberum aðilum á mörkuðum með verkframkvæmdir á komandi árum, þó ljóst sé að húsnæðismarkaðurinn hafi verið að kólna nokkuð,“ segir í skýrslunni.
Stjórn félagsins leggur til að allt að 400 milljónir króna verði greiddar í arð til hluthafa á árinu 2025. Pétur Guðmundsson er eigandi Steypustöðvarinnar í gegnum ST eignarhaldsfélag ehf.

Heimild: Vb.is