Gatnagerðagjöld fyrir fjölbýlishús í Reykjavík hækka skarpt 1. september. Álag er hjá arkitektum við að skila teikningum í tæka tíð. Leiðrétting í samræmi við önnur sveitarfélög, segir formaður umhverfis- og skipulagsráðs.
Gatnagerðargjöld fyrir einbýlishús hækka ekki. Fyrir raðhús og parhús nemur hækkunin þriðjungi og fer úr 11,3 prósentum í fimmtán prósent. Mesta hækkunin er á fjölbýlishúsum. Þar eru gatnagerðargjöld núna 5,4 prósent en verða 10 prósent. Nemur hækkunin næstum 90 prósentum.
Eru að hrúgast inn teikningar núna hjá byggingafulltrúa?
„Já, það hefur verið að aukast. Það er auðvitað ætlun okkar með þessu ákvæði sem átti að hvetja til þess að húsbyggjendur færu hraðar af stað. Það var svona markmiðið að flýta fyrir uppbyggingu. Og við erum að sjá fleiri teikningar koma inn og það er bara mjög ánægjulegt,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar og borgarfulltrúi Pírata.
Gatnagerðargjöldin í Reykjavík verða nú nær því sem gerist í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri og í Reykjanesbæ. Gjöld fyrir raðhús og parhús eru reyndar aðeins lægri í Hafnarfirði og Garðabæ. Langlægst verða nú gatnagerðargjöld fyrir fjölbýlishús í Hafnarfirði, sex prósent og í Garðabæ, 8,4 prósent. Gatnagerðargjöld fyrir fjölbýlishús eru hæst í Mosfellsbæ, á Seltjarnarnesi og á Akureyri, fimmtán prósent, eins og fram kemur í tilkynningu borgarinnar í febrúar.
„Nú erum við bara að leiðrétta gatnagerðargjöldin til samræmis við önnur sveitarfélög vegna þess að við vorum undir flest öllum sveitarfélögum áður.“
Dóra Björt segir að áður hafi gatnagerðargjöldin aðeins staðið undir um þriðjungi kostnaðar við gatnagerð og að þrátt fyrir hækkunina um mánaðamótin muni gjöldin ekki standa fyllilega undir kostnaðinum.
„Þetta er auðvitað sanngirnismál sömuleiðis vegna þess að það er lögbundin skylda að þetta eigi að vera til staðar til þess að standa undir gatnagerðinni.“
Á endanum þá er væntanlega eitthvað af þessari hækkun sem væntanlega birtist í íbúðaverði?
„Við vitum það að arðsemiskrafan hefur verið mjög stíf á Íslandi þannig að það er ekkert augljóst að þetta verði smurt beint ofan á verðið.“
Hún segir eðlilegt að húsbyggjendur standi straum af þeim kostnaði sem hlýst af gatnagerð.
„Frekar en að það sé þá kostnaður sem er fleytt út í bara byrði á aðra skattgreiðendur.“
Heimild: Ruv.is