Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans.
Fjöldi óseldra nýbygginga á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki verið meiri frá árinu 2018. Samkvæmt tölum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) voru í byrjun júlí um 1.400 íbúðir til sölu. Þótt eitthvað hafi selst á síðustu vikum stendur eftir verulegur lager af nýbyggingum sem veldur byggingaraðilum eflaust miklum áhyggjum, svo ekki sé talað um aukinn fjármagnskostnað.
Ólafur Finnbogason, fasteignasali hjá Mikluborg, segir í samtali við Morgunblaðið að lausnin sé einföld: rétt verðlagning. Nokkrir verktakar hafa þegar brugðist við með lækkun á ásettu verði til að hraða sölunni. „Það er einfaldlega kostnaðarsamt að halda dýrum eignum á lager og greiða af þeim vexti mánuð eftir mánuð,“ segir Ólafur.
„Það borgar sig frekar að lækka verðið og losa eignina.“ Eflaust má segja að þetta sé nokkuð augljós staðreynd en ástandið á lánamarkaði hefur flækt stöðuna enn frekar. Allt að 80% umsókna um fasteignalán standast ekki greiðslumat samkvæmt HMS, sem útilokar stóran hluta almennra kaupenda frá markaðnum.
Heimild: Mbl.is