
Lúxushótel sem til stóð að opna á Grenivík fyrir meira en tveimur árum er ekki enn fullbyggt. Eigendur segja kostnað hafa farið fram úr ætlun og verkið reynst flóknara en talið var.
Fimm stjörnu lúxushótel sem rís við Þengilhöfða nærri Grenivík hefur farið langt fram úr áætluðum kostnaði. Upphaflega stóð til að opna dyr fyrir gestum í lok árs 2022 en hótelið er ekki enn fullbyggt.
Fimm þúsund og fimm fermetrar, fimm stjörnur, fjörutíu herbergi, fjórar svítur og heimsklassa afþreying á borð við þyrluskíði og veiði. Svona var hugmyndin um hótelið Höfða Lodge kynnt í nóvember 2020. Þá var stefnt að opnun í lok árs 2022.
Stefnt að opnun á næsta ári
Síðan hefur margt sett strik í reikning íslensku athafnamannanna sem standa að byggingunni, með stuðningi erlendra fjárfesta. Opnun hótelsins hefur ítrekað verið frestað og sagði Björgvin Björgvinsson, annar eigenda, að hann vilji fara varlega í að auglýsa nýja opnunardagsetningu. Þeir vonist þó til að geta opnað fyrir ferðamönnum á næsta ári.
Árið 2021 sagði Björgvin ljóst að framkvæmdirnar myndu kosta yfir milljarð króna, en nú hafi sú tala hækkað umtalsvert. Hann segir það eiga sér margar skýringar hvað framkvæmdir hafi dregist á langinn, um tíma hafi vantað fjármagn og hátt vaxtastig hafi haft áhrif eins og víða annars staðar.

Höfði Lodge
Hönnunin hafi svo reynst flókin byggingar, raunar svo flókin að hann héldi húsið líklega vera með þeim flóknari sem hafi verið reist hér á landi. Verkið mjakist þó áfram og hótelið verði klárað, einhverjum árum á eftir áætlun.
Heimild: Ruv.is