
Framkvæmdir standa nú í stað við hinn sögufræga yfirlæknisbústað á Vífilsstöðum. Minjavernd hóf viðgerðir á húsinu að beiðni Framkvæmdasýslu ríkiseigna síðla árs 2021.
Áætlaður kostnaður við framkvæmdir var um 120 milljónir króna en að sögn Þorsteins Bergssonar framkvæmdastjóra Minjaverndar skortir nú fjármagn til að halda framkvæmdunum áfram.
„Þetta er magnað hús, það var eitt vandaðasta einbýlishús á landinu þegar það var byggt á sínum tíma,“ segir Þorsteinn í samtali við Morgunblaðið.
Um er að ræða reisulegt steinhús sem byggt var veturinn 1919-1920 eftir teikningum hins kunna húsameistara Guðjóns Samúelssonar en hann er meðal annars þekktur fyrir að teikna hús á borð við Hallgrímskirkju og aðalbyggingu Háskóla Íslands. Húsið stendur steinsnar austan við Vífilsstaðaspítala og var á sínum tíma heimili yfirlæknis spítalans.
Fyrsti yfirlæknir spítalans, Sigurður Magnússon, lét reisa húsið eftir að hann gaf eftir íbúð sína til að geta opnað sérstaka deild fyrir börn. Hann fékk Guðjón til að teikna húsið, en hann hafði þá nýlokið námi í húsagerðarlist í Danmörku.
Heimild: Mbl.is