Home Fréttir Í fréttum Gamla ríkinu á Seyðisfirði lyft af grunni sínum og endurbætur hefjast

Gamla ríkinu á Seyðisfirði lyft af grunni sínum og endurbætur hefjast

19
0
Nýr kjallari verður steyptur undir húsið og við það færist það fjær götunni. RÚV – Rúnar Snær Reynisson

Miklar tilfæringar voru á Seyðisfirði þegar yfir hundrað ára gömlu húsi var lyft af grunni sínum. Í húsinu eru elstu búðarinnréttingar landsins. Starfsemi gæti jafnvel hafist þar næsta sumar.

Gamla ríkið stóð á grunni sínum frá árinu 1918. Margir fylgdust spenntir með þegar stóreflis krani bjóst til að lyfta húsinu og færa það. Stálbitar voru settir undir, húsið styrkt að innan og göt gerð á þakið til að ná taki á stálramma. Þannig var tryggt að gamalt og friðað timburhúsið liðaðist ekki í sundur.

Múlaþing seldi húsið í vetur og með fylgdi 100 milljóna króna ríkisstyrkur til endurbóta. Félagið Úlfsstaðir er á bak við áformin og því stjórnar Oddur Roth, sonarsonur listamannsins Dieters Roth sem bjó lengi á Seyðisfirði og unni gömlum húsum.

„Við ætlum að byrja á að gera upp húsið í sína fallegustu mynd og svo er hugmyndin að reyna að koma í þetta einhverri starfsemi sem er skapandi og vonandi hljótast af því einhver störf hérna fyrir bæjarfélagið. Þannig að þetta sé ekki ein lundabúðin enn,“ segir Oddur Roth, byggingarverktaki og framkvæmdastjóri Úlfsstaða

Húsið verður geymt til hliðar á meðan steyptur verður nýr kjallari. Það færist til um einhverja metra við þetta og stendur þá fjær götunni en verður áfram á góðum stað við smábátahöfnina. Í húsinu var lengi vel eina áfengisútsalan á Austurlandi og í því eru friðaðar verslunarinnréttingar sem komu úr Mjóafirði og eru enn eldri en húsið.

„Það fylgir í samningnum með húsinu að við komum til með að setja upp innréttingarnar, gera þær upp og setja þær upp og þær verða væntanlega nýttar sem einhvers konar verslunarrými. Þetta eru náttúrlega verslunarinnréttingar þannig að það liggur beinast við að þær fái að njóta sín áfram sem slíkar,“ segir Oddur.

Uppgerð hússins hefst á haustmánuðum og er stefnt á að það verði tilbúið fyrir starfsemi næsta sumar.

Heimild: Ruv.is