„Umfang samstæðunnar var heldur meira á árinu 2024 en á árinu 2023.“
GG ehf., móðurfélag verktakafyrirtækisins Jáverks, hagnaðist um 749 milljónir króna eftir skatta á síðasta ári, samanborið við 726 milljónir árið áður. Stjórn GG ehf. leggur til að ekki greiddur verði arður til hluthafa í ár, samkvæmt nýbirtum ársreikning.
Rekstrartekjur samstæðunnar drógust saman um 23% milli ára og námu tæplega 7,1 milljarði króna, samanborið við 9,2 milljarða árið 2022. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsgjöld jókst um 6,5% og nam 1.063 milljónum króna. Ársverkum fjölgaði múr 79 í 81 milli ára.
„Umfang samstæðunnar var heldur meira á árinu 2024 en á árinu 2023 en vegna framkvæmda við eigin verkefni dragast reikningshaldslegar tekjur samstæðunnar talsvert saman frá samanburðarárinu,“ segir í skýrslu stjórnar.
Allur kostnaður vegna eigin verkefna samstæðunnar, sem hafa mikið vægi, er eignfærður hjá félaginu. GG eignfærði verkkostnað upp á 7,2 milljarða króna sem verk í vinnslu í fyrra en samtals nam sá liður 18,3 milljörðum króna í árslok 2024 samanborið við 10,5 milljarða í lok árs 2023.
Stjórn félagsins segir verkefnastöðu félaganna í samstæðunni góða og að árið 2025 fari vel af stað. Samkvæmt áætlunum stefni í að starfsemi samstæðunnar verði sambærileg og árið 2024. Stórt hlutfall eigin verkefna verði tilbúið til sölu og afhendingar á árinu 2025.

Eignir GG ehf. voru bókfærðar á 20,9 milljarða króna í árslok 2024, sem má að stærstum hluta rekja til eigin verka í vinnslu. Eigið fé samstæðunnar var tæplega 4,7 milljarðar króna.
Guðmundur Gunnarsson og Gylfi Gíslason eiga sitt hvorn 40% hlut í GG og er Gylfi jafnframt framkvæmdastjóri.
Heimild: Vb.is