Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Tvöfalda tengingu rafmagns til 16 staða á landinu

Tvöfalda tengingu rafmagns til 16 staða á landinu

72
0
Starfsmenn Steypustöðvar Skagafjarðar við lagningu jarðstrengs í Dalvíkulínu 2 RÚV – Ágúst Ólafsson

Farið er að síga á seinni hluta framkvæmda við lagningu ríflega 40 kílómetra rafstrengs milli Akureyrar og Dalvíkur. Strengurinn er hluti verkefnis sem felst í tvöföldun á tengingu rafmagns til byggðarlaga víða um land.

Framkvæmdir við Dalvíkurlínu 2 hófust vorið 2023. Verktakinn er Steypustöð Skagafjarðar sem hefur lagt jarðstrengi fyrir Landsnet víðs vegar um landið.

Jarðstrengurinn í Dalvíkurlínu er 42 kílómetra langur, hann liggur frá spennuvirki við Rangárvelli á Akureyri og út að spennuvirki við Dalvík. Strengurinn verður lengsti jarðstrengur í raforkukerfi Landsnets.

Tilgangurinn er að bæta raforkuöryggi með því að tvöfalda tenginguna til Dalvíkur. Gamla loftlínan fær að halda sér og 66 kílóvolta jarðstrengur bætist við. Þetta á að koma í veg fyrir atvik eins og veturinn 2019 þegar loftlínan gaf sig í miklu óveðri og Dalvík varð rafmagnslaus í þrjá sólarhringa.

„Stefna bæði stjórnvalda og Landsnets er að hafa tvítengingu til flestra byggðarlaga á Íslandi. Og þá er meira öryggi, ef önnur línan fer út þá er hin inni og meiri flutningur líka,“ segir Friðrika Marteinsdóttir, verkefnastjóri framkvæmda hjá Landsneti. Áætlun Landsnets er að tvöfalda tengingu rafmagns með þessum hætti til 16 staða víða um land.

Áfram verður loftlína til Dalvíkur en jarðstrengurinn bætist við.
RÚV – Ágúst Ólafsson

Strengurinn væntanlega ekki tengdur fyrr en 2026

Og þetta eru mannfrekar framkvæmdir en Ásmundur Pálmason, framkvæmdastjóri Steypustöðvar Skagafjarðar, segir að jafnaði 16 til 24 starfsmenn við verkið. „Þessir dagar, sem við erum í þessum útdrætti, þeir kalla á mikinn mannskap og er að mörgu að hyggja.“

Auk þess að leggja strenginn þarf að endurnýja rafbúnað í tengivirkjum á sitt hvorum enda. „Við ætlum að koma strengnum í jörð helst fyrir vetur í ár,“ segir Friðrika. „Þannig að það er planið að í septemberlok séum við búin að leggja strenginn. En það liggur ekki alveg fyrir, strengurinn verður líklega ekki tengdur fyrr en á næsta ári.“

Heimild: Ruv.is