
Ekki er hægt að bíða lengur eftir að framkvæmdir við nýtt geðþjónustuhúsnæði Landspítalans hefjist, að sögn forstjóra spítalans. Hægt væri að nýta fjármagn í húsnæðið í öðrum áfanga nýs Landspítala á seinni hluta fjármálaáætlunar.
Landspítalinn hefur augastað á lóð fyrir nýtt húsnæði undir geðsvið spítalans.
Fjármálaráðuneytið fól Nýjum Landspítala ehf. að hefja undirbúning að nýju geðþjónustuhúsi og dag-, legu- og göngudeildarhúsi. Hönnun bygginganna er ekki hafin og fjármagn hefur ekki verið eyrnamerkt ákveðnum byggingum.
Gert var ráð fyrir fjármagni sem hægt væri að nýta í þjónustuna í öðrum áfanga nýs Landspítala á seinni hluta fjármálaáætlunar, samkvæmt ráðuneytinu.
Runólfur Pálsson forstjóri Landspítalans segir að ekki sé hægt að bíða lengur eftir að framkvæmdir hefjist.

RÚV / Arnór Fannar Rúnarsson
„Við höfum augastað á lóð. Þetta er náttúrulega mjög brýnt, við getum eiginlega ekki beðið lengur eftir að framkvæmdir hefjist. Við erum komin með augastað á lóð og viðræður eru í gangi þar að lútandi þannig að ég hef miklar væntingar til þess. Viltu segja hvar? Ég get ekki sagt um það á þessari stundu.“
Heimild: Ruv.is