
Tíu metrar munu skilja að fjölbýlishús í Gufunesi eftir að framkvæmdum þar lýkur. Íbúar segja að verið sé að svipta þá allri dagsbirtu.
Íbúar í nýja hverfinu í Gufunesi segja að búið sé að taka frá þeim nær allt sólarljós, sökum þess hve þétt er byggt. Ný bygging rís um tíu metrum frá næsta húsi. Borgarfulltrúi segir að gengið hafi verið fram hjá kjörnum fulltrúum við samþykkt hússins.
Ný byggð í Gufunesi hefur risið hratt frá því að fyrsta skóflustunga var tekin árið 2020, þar sem markmiðið var að bjóða upp á smærri og ódýrari íbúðir. Fyrstu íbúar fluttu inn í þessa blokk við Jöfursbás 11 árið 2022.
„Hér var allt opið þegar við fluttum inn. En nú hafa tvær blokkir risið, ein á ári síðan við fluttum inn, og þessi verður sú þriðja,“ segir Ian Mcdonald, íbúi við Jöfursbás 11.

– Ragnar Visage
Sú þriðja er Jöfursbás 9. Þar rís fimm hæða fjölbýli með stærri og dýrari íbúðir en þær sem eru í kring. Um tíu til tólf metrar eru á milli húsa, númer níu og ellefu.
„Stundum er nálægðin svo mikil að hún er rétt rúmur metri. Og varla hægt að skipta um skoðun á milli húsa, þrengslin eru svo mikil,“ segir Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks.
Ian segist hafa spurt sérstaklega út í áformin á svæðinu þegar hann flutti inn, ekki síst í ljósi þess hvernig útsýnið úr eldhúsglugganum væri.
„Við fáum akkúrat enga dagsbirtu,“ segir Ian. Þá skyggir rauð, stærðarinnar hjólageymsla á fleiri íbúðir.

– Stefán Jón
Ian segist hafa verið meðvitaður um meiri framkvæmdir, en gerði sér ekki grein fyrir á hvaða skala þær yrðu. Fréttastofa hefur rætt við fleiri íbúa sem segja það sama.
„Þetta minnir svolítið á málið um græna gímaldið. Borgin á auðvitað að gera ákveðnar kröfur í skipulagi til þess að gæta að hagsmunum íbúa í nærliggjandi byggð,“ segir Hildur.
Málið fór hins vegar í gegn hjá borginni án athugasemda.
„Ferillinn í þessu máli var mjög óeðlilegur,“ segir Hildur, sem situr í skipulagsráði Reykjavíkurborgar.
„Þarna fer málið til skipulagsráðs, sem vísar því í auglýsingu – þetta lögbundna samráðsferli sem málum er almennt vísað í. Svo sjáum við málið ekki meir. Þegar það kemur úr samráðsferli þá er það embættismaður sem stimplar það og hleypir því áfram, án aðkomu kjörinna fulltrúa og það er verulega óeðlilegt,” segir Hildur. Engar athugasemdir höfðu borist um skipulagið, enda engir íbúar fluttir inn.

– Stefán Jón
Ian segist ítrekað hafa leitað svara frá borginni um hvers vegna ákvæði um birtuskilyrði sé ekki fylgt, en ekki fengið svör. Í svari frá Reykjavíkurborg til fréttastofu segir að bráðnauðsynleg ákvæði um birtuskilyrði í einstaka íbúðum hafi ekki verið innleidd í byggingarreglugerð.
Í svarinu segir:
„Inngarðar uppbyggingarinnar í Jöfursbás 9 a-d fær ágætis birtu ef tekið er mið af ákvæðum aðalskipulags þó það hafi ekki verið tekið sérstaklega fram í upprunalegu deiliskipulagi. Rétt að taka fram að bráðnauðsynleg ákvæði um birtuskilyrði inn í einstaka íbúðum hafa ekki verið innleidd í byggingarreglugerð enn sem komið er og því liggja ekki fyrir útreikningar um birtuskilyrði þar.“
Ian íhugar að flytja annað, því hann geti ekki boðið sjö mánaða dóttur sinni upp á að alast upp á byggingarsvæði.
„Við fáum litla dagsbirtu almennt á Íslandi og birtan sem við fengum skipti okkur miklu máli.“
Heimild: Ruv.is