„Við erum að horfa á tvær langstærstu vegaframkvæmdirnar í Íslandssögunni sem malla áfram án þess að nokkur umræða sé tekin um augljósa galla og fólk virðist ekki vita hvað er hér á ferðinni,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við Morgunblaðið.
„Ein ástæðan fyrir því að borgarlínan verður gríðarlega dýr er sú að ætlunin er að koma með nýja vagna sem hver og einn er á þyngd við fulllestaðan steypubíl, en vegirnir á höfuðborgarsvæðinu eru ekki gerðir fyrir slík ökutæki og þess vegna þarf að grafa þá flesta upp og leggja nýtt burðarlag,“ segir Guðlaugur.
Hann segir augljóst að þær framkvæmdir muni kosta milljarða ef ekki tugi milljarða króna og í þokkabót muni þeim fylgja gríðarlegar umferðartafir á þeim leiðum sem um ræðir, en það eru umferðarþyngstu samgönguæðar höfuðborgarsvæðisins. Einnig muni tafirnar einar og sér kosta samfélagið gríðarlega fjármuni.
„Í annan stað ætla Betri samgöngur að ráðast í framkvæmdir á Suðurlandsbraut, án þess að gera neinar vegabætur á öðrum leiðum, þannig að hægt verði að komast greiðlega á milli austur- og vesturhluta borgarinnar,“ segir hann og bendir á að sú framkvæmd sem skynsamlegast sé að ráðast í til að bregðast við þessu sé aftast í framkvæmdaáætlun og vísar hann þar til Miklubrautarganga sem séu á dagskrá 2040, ásamt göngum sem liggja munu til suðurs frá þeim.
Hann segir einnig að þegar ákveðið hafi verið að byggja nýjan Landspítala á núverandi stað hafi forsendan verið sú að umferðarrýmd yrði bætt og unnt að komast fljótt að og frá spítalanum.
„Það er ekki verið að gera það, sem mun hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér. Í ofanálag er með ólíkindum að tvö stærstu samgönguverkefnin skuli ekki tala saman,“ segir hann og vísar þar til verkefna Samgöngusáttmálans annars vegar og hins vegar til Sundabrautar. Umferðarrýmd muni ekki vera næg til að taka við umferð um Sundabraut þegar komið verður til lands vestan Elliðavogs.
„Þessi mál halda áfram án umræðu og að óbreyttu mun þetta hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér,“ segir Guðlaugur Þór.
Hann nefnir að miklu skipti að læra af reynslunni og minnir á að nú sé verið að ganga frá uppgjöri Íbúðalánasjóðs sem kosta muni skattgreiðendur hundruð milljarða króna. Þar hafi verið haldið áfram eftirlitslaust og mistök gerð sem falli á skattgreiðendur.
Heimild: Mbl.is