Á ráðstefnu Landsbankans og Samtaka iðnaðarins um samvinnuverkefni nú í mars sagði Teitur Samuelsen, forstjóri Austureyjar- og Sandeyjarganganna í Færeyjum, að gangagerðin hefði eiginlega verið „galið stórt“ verkefni.
Fjárfesting á hvern íbúa í eyjunum nam 7.100 evrum sem samsvarar því að Íslendingar myndu ráðast í framkvæmdir upp á 400 milljarða íslenskra króna. Í samantekt SI um þörf fyrir innviðafjárfestingar kemur fram að sem stendur þurfi 680 milljarða króna í fjárfestingar til að mæta viðhalds- og endurnýjunarþörf innviða. Eða um það bil tvö galið stór verkefni.
Sama dag og ráðstefnan var haldin fór fram umræða í færeyska lögþinginu um undirbúning að nýjum göngum, Suðureyjargöngunum, en rætt hefur verið að fjármagna þau með sama hætti og fyrri göng, þ.e.a.s. með samvinnu einkaaðila og hins opinbera. Það var því mikill fengur að fá Teit til að fjalla um hvernig Færeyingum tókst að ljúka þessum risaverkefnum þannig að stjórnvöld, almenningur, fjárfestar og verktakar færu öll sátt frá borði.
Margir áhugaverðir punktar komu fram í erindi Teits. Einn af þeim var að það er nauðsynlegt að skilgreina vel hlutverk ríkisins í verkefninu en jafnframt að aðskilja verkefnið frá ríkinu. Í gangaverkefninu var eiginfjárframlag færeyska landssjóðsins tiltölulega lágt en til að bæta upp lægra hlutfall ábyrgðist landssjóðurinn lágmarksumferð í gegnum göngin.
Þetta gerði það að verkum að hægt var að fá erlenda langtímafjárfesta í verkið enda var með þessu verið að ábyrgjast lágmarkstekjur af göngunum. Metlife, sem er einn af mörgum sjóðum sem sérhæfa sig í innviðafjárfestingum, var kjölfestufjárfestir í gangagerðinni, og í pallborðsumræðum okkar Teits og Kashif Kahn frá Metlife kom fram að verkefni af þessum toga falli vel að fjárfestingarstefnu margra langtímafjárfesta. Afar mikilvægt væri að ná vel utan um stærstu áhættuþættina. Í tilviki Íslands væri það vaxtaáhætta auk gjaldmiðlaáhættu, fyrir utan augljósa framkvæmdaáhættu.
Teitur nefndi aðra þætti sem voru mikilvægur liður í því hversu vel gekk. Hann taldi t.d. lykilatriði að það hefði verið unnið út frá norsku leiðinni í gangagerð, sem þýðir m.a. að ekki þarf að fara eftir eins ítarlegum kröfum og almennt í útboðum innan Evrópusambandsins.
Lærdómur ráðstefnunnar er að það þarf að vanda vel til verka. Hér eru fimm atriði sem tengjast fjármögnun:
Fjármálaráðgjafi þarf að halda utan um allt verkefnið frá upphafi til enda og hefur það hlutverk m.a. að sjá til þess að verkefnið falli vel að kröfum sérhæfðra innviðasjóða.
Huga þarf vel að aðkomu opinbers fjármagns. Ef almenningur, bæði fólk og fyrirtæki, er tilbúinn að greiða meira fyrir afnot vegna þæginda eða hagræðis getur ábyrgð opinberra aðila verið takmarkaðri. Einhvers konar ábyrgð þarf samt að vera fyrir hendi til að tryggja tekjur.
Mögulega þarf að stilla annars vegar upp framkvæmdafjármögnun og hins vegar langtímafjármögnun. Jafnframt er mikilvægt að samið sé um fjármögnun út líftíma til að búa ekki til óþarfa áhættu og kostnað eftir að framkvæmd lýkur.
Mikilvægt er að fá sérhæfða fjárfesta í verkið, bæði innlenda og erlenda.
Draga þarf lærdóm af Hvalfjarðargöngunum, m.a. um að til sé góð áætlun um hvað á að gera eftir að kostnaður hefur verið greiddur upp. Í bókinni Undir kelduna, sem fjallar um gerð ganganna, kemur mjög skýrt fram að betra hefði verið að halda áfram hóflegri gjaldtöku til að fjármagna bæði viðhald og frekari fjárfestingu.
Það er ánægjulegt að í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem var kynnt sl. mánudag er fjallað sérstaklega um nýjar leiðir til að flýta samgönguframkvæmdum. Þar segir m.a. að til greina komi að framtíðartekjustreymi af samgöngumannvirkjum verði veðsett til að fjármagna arðsamar nýframkvæmdir og uppfærslu á eldri innviðum. Nauðsynlegt sé að meta hvort bjóða eigi blandaða fjármögnunarleið með gjöldum frá ríkinu sem miðast við tiltekna lágmarksumferð – en það er einmitt sú leið sem Færeyingar hafa valið og sem heppnaðist svo vel.
Pistillinn birtist fyrst í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.
Heimild: Mbl.is