Home Fréttir Í fréttum Fyrsti áfangi uppbyggingar á Kringlusvæðinu

Fyrsti áfangi uppbyggingar á Kringlusvæðinu

73
0
Fyrirhugað útlit almenningstorgs á Kringlureitnum Henning Larsen og THG arkitektar

Borgarráð samþykkti í dag samkomulag við Reiti fasteignafélag, fyrir hönd Reita – þróunar og Reita atvinnuhúsnæðis, um fyrsta áfanga uppbyggingar á Kringlusvæðinu. Félagsbústaðir fá kauprétt á hluta íbúðanna. Reitir skuldbinda sig til að vinna ásamt öðrum að áætlun um leikskólaþjónustu á svæðinu og lóðarhafar ásamt borginni munu verja fjárhæð til listsköpunar þar.

Hugmyndasamkeppni
Hugmyndasamkeppni um skipulag Kringlusvæðis norðan Listabrautar var haldin árið 2017 til að fá fram hugmyndir að nýju og þéttu borgarumhverfi þar sem margbreytileikinn fengi notið sín. Tillaga Kanon arkitekta hlaut fyrstu verðlaun og var rammaskipulag samþykkt í júní 2018. Rammaskipulagið gerir ráð fyrir uppbyggingu í sjö aðskildum áföngum og er samkomulagið liður í fyrsta áfanga uppbyggingarinnar.

Yfirlitsmynd sem sýnir fyrirhugað skipulag á reitnum. (Henning Larsen og THG arkitektar).

Nýtt deiliskipulag í vinnslu
Samkvæmt hugmynd lóðarhafa er gert ráð fyrir að byggðar verði um 418 íbúðir auk atvinnuhúsnæðis á lóðunum. Er um að ræða rúma 56 þúsund fermetra af íbúðafermetrum og rúmlega 11 þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði. Gert er ráð fyrir að Reitir greiði rúmlega einn milljarð króna fyrir byggingaréttinn. Til viðbótar greiða Reitir gatnagerðargjald og önnur lögbundin gjöld sem tengjast uppbyggingunni.

Nýtt deiliskipulag fyrir lóðirnar er í vinnslu og getur staðsetning lóða, nýting, byggingarmagn og fleira breyst við afgreiðslu þess. Framkvæmdum á hverri lóð á að vera lokið innan 36 mánaða frá útgáfu byggingaleyfis.

Aðkoma í hverfið frá Kringlumýrarbraut. (Henning Larsen og THG arkitektar).

Listsköpun, leikskólar, Félagsbústaðir og almenningsrými
Hin fyrirhugaða uppbygging fellur undir samþykkta húsnæðisáætlun fyrir Reykjavíkurborg og almenn samningsmarkmið Reykjavíkurborgar á nýjum uppbyggingarsvæðum. Í samræmi við það skuldbinda lóðarhafar sig til að verja sérstakri fjárhæð til listsköpunar í almenningsrýmum á svæðinu, 11,5 milljónum króna og leggur Reykjavíkurborg til sömu upphæð.

Á grundvelli ofangreindra samningsmarkmiða er gert ráð fyrir að um 20% íbúða verði leiguíbúðir, þar með talið stúdentaíbúðir, íbúðir fyrir aldraða og/eða búseturéttaríbúðir. Félagsbústaðir hf. eiga kauprétt á allt að 5% íbúða sem verða byggðar og nýti þeir kauprétt sinn teljast þær íbúðir hluti þessara 20 prósenta. Lóðarhafar skuldbinda sig til að eiga í samvinnu við aðra lóðarhafa á reitnum um hvernig megi tryggja leikskólaþjónustu á svæðinu.

Gert er ráð fyrir almenningsrýmum auk göngu- og hjólabrúar yfir Kringlugötu til að tengja land Reita við nærliggjandi svæði.

Tölvuteiknuð mynd af inngarði á Kringlureitnum. (Henning Larsen og THG arkitektar.)

Byggjum borg fyrir fólk
Borgarstjóri heldur opinn kynningarfund um húsnæðismál á morgun, föstudaginn 28. mars 2025, í Ráðhúsi Reykjavíkur og verður fundurinn í streymi á vefnum. Þar verður Kringlureitur meðal umfjöllunarefna.

Kynningarfundur borgarstjóra um húsnæðismál.

Heimild: Reykjavik.is