Home Fréttir Í fréttum Varnargarðar undir Strandartindi líklegir til að hafa töluvert neikvæð áhrif

Varnargarðar undir Strandartindi líklegir til að hafa töluvert neikvæð áhrif

39
0
Mynd: Austurfrett.is

Sveitarfélagið Múlaþing hefur lagt fram til Skipulagsstofnunar umhverfismat sitt vegna ofanflóðavarnargarða sem reisa á sunnanmegin Seyðisfjarðar. Framkvæmdirnar munu hafa töluverð neikvæð áhrif um langt skeið þó jákvæðir þættir séu einnig nokkrir en þar fyrst og fremst að framkvæmdum loknum.

Unnið hefur verið að því um nokkurra ára skeið að skipuleggja, hanna og reisa varnargarða undir Bjólfshlíðum á Seyðisfirði og það verk heilt yfir gengið afar  vel.

Slíka varnargarða þarf líka að byggja í Neðri-Botnum, sunnanmegin byggðarinnar undir hlíðum Strandartinds, sem munu hafa mun meiri áhrif á bæjarbrag en þær framkvæmdir sem hafa þegar verið unnar. Það sökum meiri nálægðar við fjölmennari íbúðabyggð en ekki síður vegna mun meiri þungaflutninga gegnum bæinn til að vinna verkið. Þeim flutningum fylgir ákveðin loft-, hávaðamengun og ryk sama hvaða leið af tveimur verður á endanum valin.

Í hlíðum Strandartinds er gert ráð fyrir fimm varnargörðum sem reistir verða rétt ofan byggðar frá Búðará að Dagmálalæk. Fyrir utan bein og óbein áhrif á bæjarbrag þau ár sem verkið tekur kemur fram í umhverfismati Múlaþings, sem unnið er af VSÓ ráðgjöf, að slíkt muni hafi neikvæð áhrif á margt annað.

„Neikvæð áhrif koma helst fram á umhverfisþáttinn landslag og ásýnd þar sem landmótun í tengslum við framkvæmdir koma til með að breyta einkennum landslags verulega og eru áhrifin til langs tíma. Neikvæð áhrif koma einnig fram hjá umhverfisþáttunum gróðurfar, fuglalíf og jarðmyndanir en ofanflóðavarnir fela í sér rask á um 71 [hektara] svæði auk þess sem ef valinn er valkostur um nýjan vinnuveg að Skaganámu sem þverar Fjarðará bætist við 7.800 [ferkílómetra] rasksvæði.“

„Framkvæmdunum fylgir óafturkræft rask á vistgerðum sem þarfnast verndar en meirihluti rannsóknarsvæðisins er nú þegar undir miklum áhrifum mannfólks. Framkvæmdir koma til með að breyta einkennum gróðurfars á svæðinu að einhverju leyti. Fyrirhugaðar framkvæmdir koma til með að hafa töluverð áhrif á fuglalíf og er viðbúið að áhrifin verði óafturkræf fyrir sumar tegundir, á meðan aðrar tegundir geta aðlagast breyttu landi. Ekki verður rask á jarðminjum sem njóta verndar en búast má við að sýn spillist að Búðarárfossi frá byggð að einhverju leyti en fossar njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum.“

Neikvæðra áhrifa mun einnig gæti til skamms tíma, meðan framkvæmdir standa yfir, gagnvart ferðafólki vegna ónæðis og lokunar gönguleiða en til lengri tíma litið er eru framkvæmdirnar sagðar bæta aðstöðu til útivistar og auka tækifæri í þeim geira.

Allmargar mótvægisaðgerðir eru upp taldar í matinu sem draga eiga úr neikvæðum áhrifum eins og kostur er en markmið aðgerðanna er að fella varnarmannvirki sem allra best að umhverfinu en taka jafnframt tillit til nálægðar við byggð.

Umhverfismatið er alls upp á 81 síðu og kynna má sér í þaula á vef Skipulagsstofnunar hér. Frestur til að koma athugasemdum á framfæri er til 24. apríl næstkomandi.

Heimild: Austurfrett.is