Á vegum Skólastrætis Tækniskólans ehf. er óskað eftir umsóknum um þátttökurétt í lokuðu útboði á hönnun nýs húsnæðis Tækniskólans við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði. Um er að ræða fullnaðarhönnun; arkitekta-, verkfræði- og lóðarhönnun.
Arkitektafélag Íslands vill með þessu lýsa óánægju félagsmanna sinna með valferlið sem valið hefur verið og þau viðmið sem liggja að baki því, og mótmæla fyrirkomulaginu.
Óvenju ströng viðmið útiloka flestar íslenskar arkitektastofur
Valviðmiðin eru óvenju ströng og útiloka megnið af íslenskum arkitektastofum. Til að mynda er heildarstigagjöf í sumum flokkum aðeins náð ef umsækjandi hefur á síðustu 15 árum hannað sambærilega byggingu sem er yfir 10.000 m² að stærð. Hins vegar hafa afar fá skólabyggingar eða sambærileg mannvirki yfir 10.000 m² verið byggð á Íslandi á síðustu 15 árum.
Þetta skapar óeðlilega fákeppni og útilokar fjölmarga hæfa þátttakendur, á meðan aðeins örfáir umsækjendur njóta forréttinda.
Hönnun á 4.000 m² eða 10.000 m² byggingu er ekki verulega frábrugðin hvað varðar flækjustig og slík stærðarkrafa segir ekkert til um gæði væntanlegrar hönnunar. Auk þess eru arkitektar settir í óhagstæða stöðu miðað við verkfræðinga í stigagjöfinni.
Margar fyrirspurnir hafa verið lagðar fram varðandi útboðið, en við munum ekki fara nánar út í þær hér. Þær eru þó birtar hér í viðauka með þessari yfirlýsingu.
Takmörkuð innsýn í starfsemi arkitektastofa ágalli á útboðinu
Af útboðsgögnum að dæma virðist ljóst að höfundar þeirra hafi takmarkaða innsýn í starfsemi arkitektastofa. Við spyrjum: Af hverju eru verkfræðingar að útbjóða verkefni sem snýr að arkitektahönnun, en ekki sérfræðingar á því sviði?
Ný bygging Tækniskólans er mannvirki sem á að þjóna breiðum hópi almennings. Fjöldi nemenda mun sækja skólann, og með þeim koma fjölskyldur þeirra og vinir í snertingu við bygginguna. Tækniskólinn er ein mikilvægasta menntastofnun landsins og gegnir samfélagslegu hlutverki með menningarlegu gildi.
Sanngirni og framsýni þegar framkvæmd er fjármögnuð með skattfé
Þetta verkefni er fjármagnað með opinberu fé, og skattgreiðendur eiga kröfu á því að valferlið sé sanngjarnt og fjármagn nýtt á réttlátan hátt.
Ætti markmiðið ekki að vera að fá bestu mögulegu hönnunarlausnina fyrir framtíðarbyggingu skólans? Það að hafa hannað skóla yfir 10.000 m² þýðir ekki sjálfkrafa að viðkomandi arkitektastofa skili bestu byggingunni. Við efumst stórlega um að þetta valferli leiði til þess að ná settum markmiðum.
Opin samkeppni tryggir fjölbreyttar lausnir
Opin hönnunarsamkeppni hefði verið rétta leiðin. Slíkt fyrirkomulag hefði tryggt fjölbreyttari lausnir, og eigandi verkefnisins hefði getað valið samstarfsaðila sem stæði næst hans væntingum. Auk þess hefði það stuðlað að heilbrigðri samkeppni og veitt fjölbreyttum hópi arkitekta tækifæri til þátttöku.
Arkitektafélag Íslands er ávallt reiðubúið að aðstoða verkkaupa við útboð á arkitektaþjónustu og val á viðeigandi útboðsformi.
Fyrirliggjandi samkeppnisfyrirkomulög má aðlaga að óskum verkkaupa, meðal annars til að tryggja að kostnaðar- og tímarammar séu uppfylltir.
AÍ óskar eftir því að forvalsferlið verði endurskoðað með tilliti til þessara athugasemda.
Heimild: Honnunarmidstod.is