Home Fréttir Í fréttum Ætlar að ráðast í uppbyggingu meðferðarheimilis á höfuðborgarsvæðinu

Ætlar að ráðast í uppbyggingu meðferðarheimilis á höfuðborgarsvæðinu

11
0
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra. RÚV – Ragnar Visage

Ráðherra barnamála segir nauðsynlegt að opna nýtt meðferðarheimili fyrir börn og telur rétt að það sé á höfuðborgarsvæðinu eða þar nærri. Bygging meðferðarheimilis í Garðabæ virðist hafa strandað í fjármálaráðuneytinu.

Mennta- og barnamálaráðherra segir nauðsynlegt að opna nýtt meðferðarheimili fyrir börn, helst á höfuðborgarsvæðinu eða þar nærri. Bygging meðferðarheimilis í Garðabæ virðist hafa strandað í fjármálaráðuneytinu.

Ítrekað hefur verið kallað eftir meðferðarúrræðum fyrir börn með fjölþættan vanda. Ekkert meðferðarheimili er til fyrir drengi, eftir að Lækjarbakka var lokað vegna myglu og starfsemi Stuðla er skert eftir bruna í október í fyrra.

Umboðsmaður barna segir neyðarástand ríkja. Talsverður fjöldi barna fái ekki lífsnauðsynlega meðferðarþjónustu.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, tekur undir þetta. „Það er neyðarástand og við erum að huga að uppbyggingu, við viljum fara í uppbyggingu og ég er að leggja drög að því að það verði gert,“ segir Ásthildur Lóa.

Virðist hafa gufað upp í fjármálaráðuneytinu

Árið 2004 voru sjö meðferðarheimili fyrir börn á vegum ríkisins. Núna eru þau tvö, auk sérálmu á Vogi, þar sem er pláss fyrir sex börn.

Árið 2018 var ákveðið að reisa nýtt meðferðarheimili í Garðabæ, en ekkert bólar á því. Bæjarstjóri Garðabæjar segir að það strandi á ríkinu. Ásthildur Lóa segir að málið hafi fyrir löngu verið afgreitt úr hennar ráðuneyti. „Ég sé ekki betur en að mitt ráðuneyti hafi á þessum tíma klárað sitt og sent þetta til fjármálaráðuneytisins og þar virðist þetta hafa gufað upp.“

Börnum í gæsluvarðhaldi eða afplánun hefur fjölgað og þau dvelja að jafnaði lengur en áður. Þau eru vistuð ásamt öðrum börnum á Stuðlum, þar sem ekkert annað úrræði er til.

„Það er mikilvægt að við séum með úrræði þar sem að þau bæði fá meðferð en séu líka kannski ekki í sambandi við börn sem eru í vægari vanda eða annars konar vanda,“ segir Ásthildur Lóa.

Háholt í Skagafirði hefur verið nefnt sem mögulegur kostur fyrir meðferðarheimili en þar var lengi vel öryggisvistun fyrir börn.

Ásthildur Lóa segir fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu gera erfitt fyrir. „Til dæmis getur verið erfitt að fá neyðaraðstoð ef á þarf að halda, og það þarf töluvert oft.“

Þá eigi öll börn rétt á að fá heimsóknir frá fjölskyldum sínum, en um 80% barna með fjölþættan vanda eru búsett á höfuðborgarsvæðinu.

Þannig að meðferðarheimili hér á höfuðborgarsvæðinu væri frekar lausn að þínu mati? „Það verður bara að fara í þá uppbyggingu, það er engin spurning.“

Heimild: Ruv.is