Home Fréttir Í fréttum Ráðherra vill lóð fyrir sjúkraþyrlupall

Ráðherra vill lóð fyrir sjúkraþyrlupall

31
0
Alma D. Möller heilbrigðisráðherra RÚV – Ragnar Visage

Heilbrigðisráðherra vill fá lóð í Reykjavík fyrir þyrlupall við nýjan Landspítala. Nauðsynlegt að þyrlur geti lent sem næst spítalanum.

Við skipulag nýs Landspítala við Hringbraut er ekki gert ráð fyrir að sjúkraþyrlur geti lent á jörðu, hugmyndir hafa verið um að koma lendingarpalli fyrir á þaki einnar byggingar spítalans – en ákvörðun hefur ekki verið tekin. „Ég tel að það þurfi að vera þyrlupallur nálægt Hringbrautarsjúkrahúsinu,“ segir Alma D. Möller heilbrigðisráðherra.

„Auðvitað væri betra að hafa þyrlupall nær spítalanum sem yrði notaður ef virkilega lægi á. Það var gert ráð fyrir í hönnun að þyrlupallur yrði ofan á rannsóknahúsinu. En í seinni tíð hefur orðið ljóst að það þyrfti að hækka hann verulega, það er síðri kostur og best væri að hafa hann á jörðu niðri,“ segir Alma.

Og hún hyggst eiga fund með borgaryfirvöldum á næstunni vegna málsins. „Það þarf að fara fram samtal við Reykjavíkurborg um lóð.“

Lendingarstaður fyrir sjúkraþyrlur er tryggður í Nauthólsvík. Það er mat Viðars Magnússonar, læknis á þyrlum Gæslunnar, að verði það sá lendingarstaður sem er næstur nýja Landspítalanum valdi það töfum sem geti kostað líf. Viðar sagði í fréttum RÚV í gær að þær tafir gætu verið 20 mínútur eða meira.

Alma, sem er fyrrverandi þyrlulæknir, telur að þau tilvik gætu komið upp að of langt væri frá Nauthólsvík að nýja Landspítalanum. Mikilvægt sé að tilflutningur á sjúklingum sé sem minnstur. „Til dæmis milli farartækja er ákveðin áhætta í allra erfiðustu tilfellunum, Þannig að já, það er klárlega síðri kostur.“

Heimild: Ruv.is