Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Almenn sátt virðist með svarta klæðningu á Herðubreið á Seyðisfirði

Almenn sátt virðist með svarta klæðningu á Herðubreið á Seyðisfirði

23
0
Mynd: Austurfrett.is

Nokkuð almenn sátt virðist vera á Seyðisfirði um hina nýju svörtu álklæðningu sem prýðir nú þegar töluverðan hluta félagsheimilisins Herðubreiðar. Allnokkrar óánægjuraddir gerðu vart við sig þegar ákveðið var fyrir ári að svört álklæðning yrði fyrir valinu á húsið.

<>

Austurfrétt tók nokkra bæjarbúa óformlega tali í síðustu viku og kannaði hug þeirra til útlits hússins nú þegar tæpur helmingur þess hefur verið klæddur svörtu áli. Það mikil breyting frá ljósmálaðri steinsteypunni sem húsið hefur einkennt í áraraðir og munurinn sést glögglega á meðfylgjandi mynd.

Af þeim tíu sem teknir voru tali töldu átta þeirra útlitið aldeilis ágætt og góða breytingu frá illa förnum og veðruðum veggjum hússins. Einn sagðist ekki viss hvað honum finndist meðan sá tíundi vildi hinkra með að tjá sína skoðun fyrr en húsið væri allt klætt að fullu.

Undir þetta tóku líka verktakarnir í húsinu, Eðalverk ehf.,  sem sögðu velflesta sem stoppað hefðu í spjall frá því verkið hófst hefðu lýst ánægju með nýja útlitið. Þrátt fyrir að steypuskemmdir á húsinu hafi verið nokkuð meiri en ráð var fyrir gert bendir ekkert annað til þess nú en lokið verði við að klæða það allt kringum mánaðarmótin júní, júlí eins og áætlanir gerðu ráð fyrir.

Áhyggjur þeirra sem í sér létu heyra á sínum tíma vegna útlitsbreytinganna snérust aðallega um að álklæðning myndi gjörbreyta fallegu upprunalegu útliti hússins.

Bentu þau máli sínu til stuðnings á þau mistök sem gerð voru varðandi sundlaugina á sínum tíma þegar hún var klædd Garðastáli með miður fallegum afleiðingum. Bæði sundlaugin og Herðubreið voru á sínum tíma hönnuð af allra fremstu arkitektum þjóðarinnar, þeim Guðjóni Samúelssyni og Gísla Halldórssyni.

Heimild: Austurfrett.is