
Ársþing KSÍ fór fram um helgina. Auk afgreiðslu tillagna og breytinga á reglugerðum sambandsins voru framtíðaráform Laugardalsvallar kynnt fyrir þingfulltrúum og gestum.
Framkvæmdir á Laugardalsvelli hafa staðið yfir síðan í haust. Skipta á um undirlag á vellinum og svokallað Hybrid-gras, sem er blanda gervigrass og náttúrugrass, sett á auk þess sem völlurinn verður upphitaður með hitastýringarkerfi.
Þá verður völlurinn færður nær stúkunni vestan við völlinn þar sem skrifstofur KSÍ eru en á ársþingi sambandsins um helgina fór verkefnastjórinn Hannes Frímann Sigurðsson yfir stöðu framkvæmda á Laugardalsvelli og kynnti næstu áfanga framkvæmda.
Nýjar stúkur sem loka vellinum
Á kynningunni voru sýndar voru tilgátumyndir af stúkum sem stefnt er að rísi og munu loka vellinum á öllum hliðum.
Í næsta áfanga er ætlunin að byggja stúkur fyrir aftan mörkin báðu megin, á norður- og suðurendum vallarins. Engar stúkur er þar að finna nú.
Þar á eftir er áætlað að tengja stúkuna austan megin við völlinn við nýju stúkurnar aftan við mörkin þannig að heild myndist. Að lokum er sagt frá möguleika á nýjum hornstúkum sem tengja myndu vesturstúku og loka vellinum þar með.
Myndir frá kynningunni má sjá með því að smella hér fyrir neðan en þar er á greinargóðan hátt greint frá yfirstandandi framkvæmdum sem og næstu áföngum.
Kynning um framkvæmdir á Laugardalsvelli.
Heimild: Visir.is