
Land sígur við Miðgarð, fjölnota íþróttahús Garðabæjar í Vetrarmýri. Ástæðan fyrir siginu er að jarðvegur undir og á svæðinu í kringum húsið er mýri og þarna í kring hafa verið framkvæmdir. Dýpi á fastan botn er talsvert breytilegt eða allt að 12 metrar.
Ásta Sigrún Magnúsdóttir samskiptastjóri Garðabæjar segir húsið vera byggt á staurum og stagað niður í klapparbotninn undir húsinu. Þannig að sig undir húsinu hafi ekki áhrif á burðarþol hússins.
„Sigið mælist frá 0-60 cm og er hvað mest þar sem mýrarlagið er þykkast sem er einmitt nánast undir miðju húsinu. Almennt er sig í mýrarjarðvegi sem hefur fengið á sig viðbótarálag s.s. vegna fyllinga mest til að byrja með en hægir svo á sér, en búast má við að sig geti haldið áfram í einhvern tíma í viðbót.“

Hún segir að vel sé fylgst með stöðu jarðvegsins í kringum húsið og gripið sé til ráðstafana eftir því sem ástæða er til. T.d. eru áætlaðar framkvæmdir við bakhlið hússins á vormánuðum.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, laugardag.
Heimild: Mbl.is