
Framkvæmdir eru í fullum gangi við grænu risabygginguna við Álfabakka. Byggingafulltrúinn í Reykjavík ætlaði að taka ákvörðun um framhald málsins eftir að frestur eigenda hússins rann út fyrir viku. Sú ákvörðun liggur enn ekki fyrir.
Starfsmenn við byggingu vöruskemmunnar stóru, sem sumir kalla græna vegginn eða græna ferlíkið, draga ekkert af sér við störf, þótt afdrif byggingarinnar séu ekki ljós. Byggingarleyfið er jú enn í gildi nema að leyfið fyrir kjötvinnslu er í uppnámi.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vísaði frá kæru Búseta á þriðjudaginn því að byggingarfulltrúi hafði stöðvað framkvæmdir við kjötvinnslu 30. janúar.

RÚV / Víðir Hólm Ólafsson
Í úrskurðinum segir að byggingarfulltrúi hafi veitt hlutaðeigandi aðilum sjö daga frest til að skila skriflegum skýringum og athugasemdum vegna málsins. Meðal annars vegna misræmis milli teikninga og skráningartöflu og þess hvort kjötvinnslan hefði verið tilkynnt til Skipulagsstofnunar. Að þeim fresti liðnum myndi byggingarfulltrúi taka ákvörðun um framhald málsins. Tekur hann fram að honum kunni að vera heimilt að breyta eða fella byggingarleyfi úr gildi. Hálfur mánuður er liðinn frá 30. janúar. Ekkert bólar á ákvörðun en samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg er málið í vinnslu.
Búseti á fjölbýlishúsið Árskóga 5-7, sem er 14 metrum frá byggingunni. Það var ekki inn á teikningum sem sýna áttu afstöðu byggingarinnar til nærliggjandi mannvirkja. Búseti telur í stjórnsýslukæru sinni að byggingin sé ekki í samræmi við gildandi skipulag, byggingarleyfið sé hvorki í samræmi við lög né reglur og að framkvæmdin sé ekki í samræmi við byggingarleyfið.
Heimild: Ruv.is