Home Fréttir Í fréttum Verktakar sem reisa nýtt hverfi hafa verið rafmagnslausir í hálft ár

Verktakar sem reisa nýtt hverfi hafa verið rafmagnslausir í hálft ár

89
0
Maður að störfum á vinnusvæðinu í Móahverfi í október. RÚV – Andrea María Sveinsdóttir

Ekki hefur enn verið lagt rafmagn að Móahverfi á Akureyri, en verktakar byrjuðu að byggja þar síðasta sumar. Bærinn og Norðurorka segir tafirnar eiga sér eðlilegar skýringar en verktakar segja vinnubrögðin óviðunandi.

<>

Byggingarverktakar á Akureyri segja óviðunandi að ekki sé enn búið að leggja rafmagn í nýtt hverfi, þar sem framkvæmdir áttu að hefjast haustið 2023. Þar er keppst við að byggja íbúðarhús, en allar vinnuvélar þarf að knýja með rafmagni frá dísilrafstöð.

Síðasta sumar hófst uppbygging íbúða í Móahverfi í norðvestanverðum Akureyrarbæ, talsvert á eftir áætlun en til stóð að hefjast handa í nóvember 2023. Fréttastofa ræddi við verktaka í október, sem þá höfðu nokkrir keypt sér stærðarinnar dísilrafstöðvar til þess að geta hafið framkvæmdir þó hvorki hafi verið vatn né rafmagn á svæðinu á þeim tíma.

Ein og hálf milljón í dísilolíu á mánuði

Í dag eru verktakarnir sem byggja Móahverfið enn rafmagnslausir og kostar hvern þeirra um eina og hálfa milljón á mánuði að keyra vélar sínar á olíu. Stjórn Meistarafélags byggingamanna á Norðurlandi hefur krafið Akureyrarbæ og Norðurorku um úrbætur.

„Það er algjörlega óásættanlegt að ekki skuli enn vera komið rafmagn á verkstaði í Móahverfi á Akureyri. Byggingarverktakar eru að rembast við að aðstoða sveitarfélög við að byggja upp íbúðarhúsnæði ekki síst til að sveitarfélög geti uppfyllt sínar eigin „húsnæðisáætlanir“. Því miður er hvorki Akureyrarbær né Norðurorka að aðstoða við að aðstæður til að byggja upp þessi mannvirki séu viðunandi,“ segir í bréfi MBN til bæjaryfirvalda og Norðurorku.

Akureyrarbær hefur vísað til samnings sem gerður var við verktaka, þar sem þeir samþykktu að hefja vinnu á lóðunum áður en að veitur væru komnar.

Ármann Ketilsson, formaður félagsins, segir verktaka í raun ekki hafa haft annarra kosta völ en að samþykkja það.

„Verktakar eru í raun og veru tilneyddir að skrifa undir þetta samkomulag. Ef þeir hefðu ekki fengið að byrja á þessum framkvæmdum, hefðu þeir bara þurft að segja upp starfsmönnum. Þannig er staðan.“

Auk rekstrarerfiðleika verktakanna bendir Ármann á að hefðu þeir neitað samningnum hefði það tafið verulega framkvæmdir – sem jú miðast við að byggja hverfi og fjölga íbúðum í samræmi við áætlun Akureyrarbæjar.

„Má ávallt vænta þess að upp komi óvæntar aðstæður“

Í svari bæjarins til verktakanna segir að í svo umfangsmiklum verkefnum megi alltaf vænta þess að eitthvað komi upp á.

„Í slíkum verkefnum má ávallt má vænta þess að upp komi óvæntar aðstæður sem bregðast þurfi við og það er ýmislegt sem má læra af þeim framkvæmdum sem þegar hafa farið fram við uppbyggingu Móahverfis sem nýtist við skipulag áframhaldandi uppbyggingar á svæðinu og við skipulag sambærilegra verkefna í framtíðinni,“ segir í svari Akureyrarbæjar við bréfinu.

„Að hafa framkvæmdir innan lóða í gangi samhliða framkvæmdum við götur og veitur getur verið snúið og haft í för með sér ýmsan aukakostnað. Má þannig gera ráð fyrir að verkið væri komið mun lengra en raunin er í dag ef lóðarhafar hefðu ekki fengið að fara af stað með framkvæmdir,“ segir enn fremur í svörum bæjarins.

Tveir bæjarfulltrúar óskuðu eftir úttekt á framkvæmdum í Móahverfi en meirihlutinn taldi það ekki tímabært.

Heimild: Ruv.is