Fleiri fyrirtæki starfa í byggingariðnaði í upphafi þessa árs samanborið við upphaf árs 2024. Þetta má lesa úr tölum Hagstofu Íslands um nýskráningar og gjaldþrot fyrirtækja í atvinnurekstri. Hins vegar fækkar nýskráningum umfram gjaldþrot örlítið á milli ára.
Fyrirtækjum fjölgar hægar í byggingargeira þrátt fyrir færri gjaldþrot
Á nýliðnu ári urðu 228 fyrirtæki í byggingariðnaði gjaldþrota sem er samdráttur um fjórðung frá 2023 þegar 302 fyrirtæki í byggingargeira urðu gjaldþrota. Nýskráningar fyrirtækja í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð drógust saman um 81 fyrirtæki á milli ára. Nýskráningar fyrirtækja í byggingariðnaði umfram gjaldþrot árið 2024 voru 309 samanborið við 316 árið 2023.
Flestar nýskráningar fyrirtækja í atvinnurekstri voru í byggingariðnaði
Flestar nýskráningar fyrirtækja í atvinnurekstri voru í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð eða 537 sem þó er fækkun um 13% frá fyrra ári. Nýskráðum fyrirtækjum í öllum atvinnurekstri fækkaði um 4%. Á árinu var 851 fyrirtæki tekið til gjaldþrotaskipta sem er 30% fækkun frá fyrra ári þegar 1.220 fyrirtæki urðu gjaldþrota. Nýskráningar allra fyrirtækja umfram gjaldþrot árið 2024 voru því 2.525 samanborið við 2.297 árið 2023 eða 228 fleiri milli ára.
![](http://byggingar.is/wp-content/uploads/2025/02/10.02.2025-Nyskraningar-og-gjaldthrot-i-byggingarstarfsemi-a-timabilinu-2008-til-2024.jpg)
Myndin hér að ofan sýnir nýskráningar og gjaldþrot fyrirtækja í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð á ári hverju á tímabilinu 2008 til 2024. Frá árinu 2013 hafa nýskráningar verið fleiri en gjaldþrot sem bendir til þess að fyrirtækjum hafi fjölgað í greininni ár frá ári.
Heimild: HMS.is