Home Fréttir Í fréttum Hagar segja miður hvernig staðið var að skipulagi við Álfabakka 2

Hagar segja miður hvernig staðið var að skipulagi við Álfabakka 2

18
0
Hagar hafa gert leigusamning um húsnæðið til nokkurra ára. RÚV – Víðir Hólm Ólafsson

Hagar, sem hafa gert leigusamning vegna húsnæðisins að Álfabakka 2, segja það alvarlegt umhugsunarefni hvernig staðið hafi verið að skipulagsmálum við uppbyggingu atvinnuhúsnæðisins.

<>

Finnur Oddsson, forstjóri Haga, segir miður að misbrestur hafi orðið á samstarfi framkvæmdaraðila, Reykjavíkurborgar og íbúa hverfisins við uppbyggingu atvinnuhúsnæðis við Álfabakka 2. Hagar hafa gert leigusamning um húsnæðið til nokkurra ára.

Í tilkynningu Haga vegna málsins segir að félagið leggi sérstaka áherslu á að styðja við þau hverfi og svæði sem þau starfa á og hafi jafnframt lagt áherslu á að gagnsæi ríkti um fyrirhugaða starfsemi, kjötvinnslu, í húsinu.

Forstjóri Haga segir bæði íbúa og atvinnurekendur eiga sjálfsagða kröfu um að vandað sé til ákvarðana um skipulagsmál, að hægt sé að treysta þeim til lengri tíma og að umræða um skipulag og framkvæmdir sé fagleg og byggð á staðreyndum. Það sé alvarlegt umhugsunarefni hvernig staðið hafi verið að skipulagsmálum og hvernig umræða um þau hafi oft og tíðum verið villandi eða jafnvel efnislega röng.

„Slík umræða, m.a. af hálfu kjörinna fulltrúa, er ekki við hæfi, og sérstaklega ekki þegar hún verður til þess að skapa óvissu fyrir íbúa og óvissu um starfsemi fyrirtækja sem veita mikilvæga þjónustu, skapa fjölda starfa og skatttekjur fyrir ríki og sveitarfélag. Sem væntanlegur leigutaki eiga Hagar að geta treyst því að ferli í tengslum við skipulag og úthlutun byggingarleyfa til handa eigenda byggingar við Álfabakka 2 hafi verið unnið samkvæmt lögum og rétt afgreidd af stofnunum Reykjavíkurborgar,“ segir í tilkynningu Haga.

Þar segir að Hagar hafi mikinn skilning á því að sambúð íbúðabyggðar og atvinnustarfsemi geti verið vandasöm. Af hálfu Haga, innan þeirra marka sem hlutverk leigutaka setur, verði þess sérstaklega gætt að að starfsemi verði til fyrirmyndar, í góðri sátt við nánasta umhverfi og nágranna.

„Við gerum ráð fyrir að forsendur til þess verði skapaðar af skipulagsyfirvöldum og eigendum byggingarinnar að Álfabakka 2.“

Heimild: Ruv.is