Home Fréttir Í fréttum Vonast til að útboðsferli um Sundabraut hefjist á þessu ári

Vonast til að útboðsferli um Sundabraut hefjist á þessu ári

44
0
Sundabraut mun liggja að hluta til um Kleppsvík. Þar verður annað hvort brú eða göng. Rannsóknir á jarðlögum standa nú yfir. Vegagerðin

Vegagerðin og Reykjavíkurborg vonast til að útboðsferli um Sundabraut geti hafist á þessu ári. Umhverfismatsskýrsla verður kynnt í vor ásamt breytingum á aðalskipulagi Reykjavíkur.

<>

Vonast er til þess að útboðsferli samvinnuverkefnis um Sundabraut geti hafist á þessu ári. Þá er ætlunin að hönnunarvinnu ljúki í vor á þessum nýja stofnvegi sem liggur frá Sæbraut að Kjalarnesi.

Umhverfismatsskýrsla verður kynnt í vor og verður hún öllum aðgengileg í Skipulagsgátt. Þá verða einnig opnir kynningarfundir haldnir og á sama tíma kynntar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur.

Mögulegt útlit Sundabrautar séð frá Mógilsá. Mynd fengin frá Vegagerðinni.
Mynd: Vegagerðin

Eyjólfur Ármannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sagði fyrir jól að lagning Sundabrautar í Reykjavík yrði eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar í samgöngumálum og að hún verði fjármögnuð með veggjöldum.

Samkvæmt tilkynningu Vegagerðarinnar hefur mikil vinna farið í rannsóknir og greiningu á umhverfisáhrifum vegna Sundabrautarinnar frá því matsáætlun um verkefnið var birt 2023.

Helga Jóna Jónasdóttir, verkefnisstjóri Sundabrautar hjá Vegagerðinni, segir að enn eigi eftir að taka afstöðu til nokkurra tillagna sem settar eru fram í umhverfismatinu.

„Í grunninn stendur valið á milli þess að þvera Kleppsvík á brú eða í göngum. Fyrir brúarlausnina erum við síðan að skoða mismunandi útfærslur í hæð og lengd, auk gatnamóta og tenginga, bæði fyrir bíla, gangandi og hjólandi vegfarendur,“ segir Helga Jóna Jónsdóttir í tilkynningu Vegagerðarinnar.

Möguleg lega Sundabrautar.
Samgöngu og sveitarstjórnarráðuneytið

„Það tekur sinn tíma að frumhanna og rannsaka mismunandi leiðir svo hægt sé að meta framkvæmdakostnað mannvirkja og gera grein fyrir umhverfisáhrifum þeirra. Að auki liggur hluti Sundabrautar um viðkvæm svæði sem þarf að greina og rannsaka vel áður en ákvörðun verður tekin um endanlega útfærslu mannvirkja,”

Helga Jóna vonast til að allar forsendur að leiðarvali og ákvarðanatöku liggi fyrir um mitt árið og hægt verði þá að hefja útboðsferlið. Gert er ráð fyrir að einkaaðilar annist fjármögnun í samræmi við lög um samvinnuverkefni.

Heimild: Ruv.is