
Þrettán þúsund fermetra lager í sjö skemmum mun rísa á Miðnesheiði á næstu vikum. Þar verða geymd tæki og tól til að byggja nýjan flugvöll, reynist þörf á. Kostnaðurinn nemur um 13,5 milljörðum króna og er alfarið greiddur af bandaríska hernum.
Feiknarstórar birgðageymslur rísa á næstunni á varnarsvæðinu á Miðnesheiði. Þær munu meðal annars hýsa allt sem til þarf til að búa til flugvelli og laga þá sem kunna að skemmast. „Þetta verður eins konar flugvöllur í boxi,“ segir skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Bandaríkjaher greiðir fyrir verkefnið sem kostar 13,5 milljarða króna.
Sjö feiknarstórar skemmur
Það hefur verið mikið að gera á framkvæmdasvæðinu síðustu vikurnar. Í skemmunum sem þar munu rísa verður geymdur allur búnaður sem þarf til að koma upp flugvöllum hvar sem er, að sögn Jónasar Gunnars Allanssonar, skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.
„Þetta er allt sem þarf til að koma upp flugvelli, hér á Íslandi en líka annars staðar í Evrópu ef þörf reynist á. Sambærilegar birgðageymslur eru í uppbyggingu í öðrum Evrópuríkjum. Þetta er bara hluti af því að efla viðnámsgetu og viðbúnað ríkjanna til þess að bregðast við einhverju ástandi.“
Er þetta þá hugsað til að koma upp flugvelli á einhverjum stað sem við sjáum kannski ekki fyrir núna að þurfi að hafa flugvöll á?
„Já. Þetta er bæði til að gera við flugvelli ef eitthvað kemur upp á en líka til að setja þá upp á öðrum stöðum. Og það er mikil geta önnur. Það eru rafstöðvar, það er aðstaða til að framleiða mat, það eru skurðgröfur og ýmis tæknibúnaður til að reka flugvelli. Þannig að það má segja að þetta sé eins konar flugvöllur í boxi.“

Fjölmargir Íslendingar í vinnu vegna aukinna umsvifa hersins
200–300 hermenn dvelja nú á varnarsvæðinu og eru þar í sex mánuði í senn. Fjöldi Íslendinga kemur einnig að uppbyggingunni og síauknum umsvifum á sviði öryggis- og varnarmála. Um 50 Íslendingar starfa nú þegar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
En ef við horfum bara á þá sem starfa í varnarmálum fyrir Ísland þá eru þeir miklu fleiri. Við erum með fólk sem starfar hjá Landhelgisgæslunni, ríkislögreglustjóra, við erum með fólk í utanríkisráðuneytinu og við erum öll að vinna saman að þessum málum. Svo erum við með fólk inni í herstjórnum hjá Atlantshafsbandalaginu og þar eru sérfræðingar í ákveðnum málaflokkum. Allt skiptir þetta okkur máli því núna er viðbúnaður bandalagsins að breytast. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að taka þátt í þeirri stefnumótun.
Vilja styrkja áfallaþol samfélagsins
Hvað á fólk að halda? Fólk sem horfir á eða les svona fréttir um þennan viðbúnað hér og það setur að því ugg?
Það sem er mikilvægt hér er að við erum að bregðast við þessu og ekki bara við heldur öll okkar samstarfsríki. Það er verið að auka við þessa getu sem við þurfum til að bregðast við og hún er ekki bara á varnar- og hernaðarsviðinu. Hún snýst líka um það að styrkja áfallaþol samfélagsins.
Hvernig bregðumst við við ef það skapast eitthvað spennuástand?
Við erum að aðlaga okkur að nýju ástandi. Þessir innviðir skipta okkur máli og þeir skipta máli fyrir okkar bandalagsríki. Við erum ekki ein. Við erum hluti af varnarsamstarfinu. Þó að við séum herlaus þá erum við ekki varnarlaus. Við erum hluti af stærri mynd, og það er það sem skiptir okkur mestu máli.
Heimild: Ruv.is