Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur vísað frá kæru vegna fyrirhugaðra framkvæmda við fasteignina Sólvallagötu 14 í Reykjavík sem ætlað er að verða heimili bandaríska sendiherrans á Íslandi.
Þar sem um væri að ræða sendiráðsbyggingu taldi nefndin sig ekki hafa lögsögu í málinu með hliðsjón af svonefndum Vínarsamningi.
Á sínum tíma var mikil óánægja með áformin hjá nágrönnum og sendu um 80 manns inn athugasemdir.
Nágranni Sólvallagötu 14 kærði þá ákvörðun byggingarfulltrúa að samþykkja á fundi þann 9. júlí 2024 byggingarleyfi fyrir breytingum á húsi og lóð Sólvallagötu sem m.a. fólu í sér nýbyggingu ofan á bílskúr við lóðarmörk og uppsetningu öryggisgirðinga á steypta veggi á lóðarmörkum. Farið var fram á að leyfi fyrir þessum framkvæmdum yrði fellt úr gildi.
Í málsrökum Reykjavíkurborgar kemur m.a. fram að ekki sé búið að gefa út byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum. Byggingarfulltrúi hafi einungis samþykkt byggingaráform. Slíkir annmarkar á kröfugerð ættu að leiða til frávísunar.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær.
Heimild: Mbl.is