Nýskipaður samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir að lagning Sundabrautar í Reykjavík verði eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar í samgöngumálum. Hún verður fjármögnuð með veggjöldum.
Eyjólfur Ármannsson nýskipaður samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir að lagning Sundabrautar í Reykjavík verði eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar í samgöngumálum. Hún verður fjármögnuð með veggjöldum.
Ráðist verður í framkvæmdir um allt land í samgöngumálum á næstu árum samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem kynntur var um helgina. Þar segir að ætlunin sé að rjúfa kyrrstöðu í jarðgangagerð og vinna á viðhaldsskuld í kerfinu.
„Fyrsta verkefnið verður að setja Sundabraut í forgang. Svo er gert ráð fyrir í stjórnarsáttmálanum að það verði ein jarðgöng í gangi á hverjum tíma. Innviðaframkvæmdir eiga að styðja aukna verðmætasköpun í landinu og það eru ákveðnar hafnarframkvæmdir og annað sem ég hef í huga,“ segir Eyjólfur.
Vinna við undirbúning Sundabrautur hefur staðið yfir í mörg ár og er ætlunin að hönnunarvinnu ljúki í vor. Í framhaldi verða lagðar fram breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar. Eyjólfur segir að framkvæmdirnar verði fjármagnaðar með veggjöldum. Ekki liggur fyrir hvort svipað fyrirkomulag verði notað til að fjármagna önnur verkefni.
„Sundabrautin klárlega en það er ekki annað sem er í spilunum hvað það varðar,“ segir Eyjólfur.
Heimild: Ruv.is