Home Fréttir Í fréttum Ný vélaskemma risin í Hlíðarfjalli

Ný vélaskemma risin í Hlíðarfjalli

20
0
Mynd: Kaffid.is

Súlur stálgrindarhús ehf., dótturfélag Slippsins Akureyri ehf., hefur lokað nýrri vélaskemmu sem fyrirtækið reisir fyrir Akureyrarbæ á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli. Um er að ræða 800 fermetra hús að grunnfleti en því til viðbótar er starfsmannaaðstaða á tveimur hæðum í húsinu og heildargólfflötur er því um 1000 fermetrar. Samhliða lokafrágangi utanhúss hefst vinna við innahússfrágang strax eftir áramót.

<>

Krefjandi aðstæður í Hlíðarfjalli 

Súlur stálgrindarhús ehf. hefur með höndum allt stálvirki framkvæmdarinnar, þ.e. húsið sjálft frágengið með klæðningum, hurðum, gluggum og öðru tilheyrandi. Húsið er vottuð framleiðsla frá Kína og hófst uppsetning í september síðastliðnum. Kristján H. Kristjánsson, framkvæmdastjóri Súlna stálgrindarhúsa ehf., segir þetta stóran áfanga en þetta er jafnframt fyrsta húsið sem fyrirtækið reisir frá grunni.

Mynd: Kaffid.is

„Af ýmsum ástæðum, tíðarfari í vor og fleiru, hófst vinna annarra verktaka við undirstöður ekki fyrr en komið var fram í júní og því gátum við ekki byrjað á uppsetningu hússins fyrr en í september.

Aðstæður fyrir svona framkvæmd eru mjög krefjandi í Hlíðarfjalli og mjög algengt að hér niðri í bæ sé logn en stífur vindur á sama tíma í Hlíðarfjalli og ekki hægt að vinna með krana og við hífingar eins og svona framkvæmd krefst. En þrátt fyrir frátafir náum við að loka húsinu á þeim tíma sem við áætluðum þegar við hófumst handa í september og ég er mjög ánægður með það.

Sú áætlun hefði ekki gengið eftir nema vegna þess samhenta og öfluga starfsmannahóps sem við erum með og þess baklands sem við höfum á öllum fagsviðum málmiðnaðar hjá Slippnum,“ segir Kristján.

Lokafrágangur við glugga, flasningar og þess háttar verður strax eftir áramót og mun ljúka í janúar en Kristján segir að bíða þurfi þess til næsta sumars að verktaki við uppsteypu ljúki við að steypa undirstöður fyrir stiga og svalir, sem verða þá síðustu stáleiningarnar sem húsinu tilheyra.

Mynd: Kaffid.is

Verður bylting fyrir skíðasvæðið
Kristján Snorrason, verkefnastjóri nýframkvæmda hjá Akureyrarbæ, segir að nýja vélaskemman komi til með að breyta miklu fyrir starfsmenn og starfsemina í Hlíðarfjalli.

„Með tilkomu hússins verður hægt að geyma alla fjóra troðara skíðasvæðisins innandyra en á gamla verkstæðinu var aðeins hægt að hafa tvo troðara inni í einu. Húsið er líka staðsett nær skíðasvæðinu sjálfu og greiðari leið fyrir troðarana beint á skíðasvæðið, auk þess sem þeir eru þá ekki að þvera umferð skíðafólks eins og hefur verið.

Starfsmannaaðstaða er á efri hæð í húsinu og þangað kemur skíðagæslan til með að flytjast í húsið, þ.e. vöktun á lyftunum og svæðinu í heild. Húsið er þannig staðsett að úr því er mun betra að hafa yfirsýn á svæðið en úr skíðaskálanum þar sem eftirlitið hefur verið,“ segir Kristján.

Mynd: Kaffid.is

Hann segist ekki reikna með að nýja húsið verði að fullu tekið í notkun á þessum skíðavetri en áhersla verði lögð á að geta sem fyrst notað húsið til að hýsa troðarana.

Heimild: Kaffid.is