Ríkið gekk í lok nóvember frá sölu á fyrrum framhaldsskóla á Ytri Skógum fyrir 300 milljónir króna. Kaupandi er félagið Fjallafje ehf., sem er í eigu Einars Þórs Jóhannssonar og Jóhanns Þóris Jóhannssonar.
Undanfarin ár hefur verið hótelrekstur í húsunum.
Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir (FSRE) auglýsti fyrrum framhaldsskólann á Skógum ásamt heimavist og bílskúr til sölu í haust á 260 milljónir króna, samkvæmt fasteignavefnum Fastanum. Eignarhlutur ríkisins í borholu að Skógum er ekki hluti af kaupunum.
„Komið er að töluverðu viðhaldi á húsinu en lítur að mestu vel út að innan. Húsið er steinað að stærstum hluta en steining er byrjuð að springa og losna. Íþróttahús og sundlaug eru klædd með steniklæðningu. Gler er allt ónýtt í húsinu,“ segir í auglýsingu FSRE.
Undanfarin ár hefur verið hótelrekstur í húsunum en leigusamningur féll úr gildi þann 31. október síðastliðinn. FSRE sagði að með eigninni sé tækifæri til að byggja upp frekari ferðaþjónustu á svæðinu sem er steinsnar frá Skógarfossi, Seljalandsfossi, Reynisfjöru og fleiri ferðamannastöðum.
Aðalbygging að Skólavegi 1, sem er 1.882 fermetrar, var byggð árið 1949. Þar er íþróttahús og sundlaug með búningsklefum. Málverk eftir Benedikt Gunnarsson í anddyri fylgja eigninni samkvæmt kaupsamningi. Þá er heimavist að Vistarvegi 1, sem byggð var 1967, 387,7 fermetrar.
Eignirnar eru á leigulóð og var lóðarleigusamningurinn endurnýjaður í febrúar 2023 til 75 ára. Starfandi ferðaþjónusta er á svæðinu og gistiheimili rekið í húsunum.
Heimild: Vb.is