Félagsheimili Hornfirðinga Sindrabær gengur nú í endurnýjun lífdaga. Þessi fornfrægi ballstaður og vígi eins harðsnúnasta húsvarðar landsins er að breytast í virðulegt menningarhús.
Vígi eins harðsnúnasta húsvarðar landsins, félagsheimilið Sindrabær, er að breytast í virðulegt menningarhús. Þar hefur tónskóli Hornafjarðar verið með aðsetur og aðstaða til æfinga og kennslu verður fyrsta flokks.
Sigurjón Digri í Stuðmannamyndinni Með allt á hreinu er ein af skemmtilegustu persónum íslenskrar kvikmyndasögu og átti sér fyrirmynd. Það var í raun Ragnar Björnsson húsvörður og rekstrarstjóri í Sindrabæ á Hornafirði sem Stuðmenn þurftu að sjá og sigra.
Núna er þó ekki verið að skúra út ballsvita í Sindrabæ heldur sópa upp brotsteypu og sagi. Allsherjar endurbætur standa yfir í húsinu öllu.
Öll aðstaða eins og best verður á kosið
„Þetta er stór framkvæmd við erum í þremur verkefnum sem eru á þessum skala og þetta er eitt af þeim. Og síðan erum við að byggja við leikskóla og hjúkrunarheimili. En þetta er eitt af þeim stærri og þessi framkvæmd er einhver staðar í kringum 400 milljónir. Við förum alla leið og við ætlum að gera þetta eins og best verður á kosið,“ segir Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri á Hornafirði.
Bygging hússins hófst árið 1955 og tók mörg ár, því safna þurfti styrkjum í verkið og voru gárungarnir farnir að kalla húsið Betlehem.
Nú verður engu til sparað. Stórt og fullkomið svið verður í salnum og hægt að láta flygilinn lyftast upp úr gólfinu.
Mikil lagt í nýjar kennslustofur tónskólans
Tónskóli Hornfirðinga hefur lengi verið í Sindrabæ og er starfið öflugt. Þar æfðu flestir meðlimir hljómsveitarinnar Fókus en hún sigraði í Músíktilraunum í fyrra. Tónskólinn verður líka algjörlega endurnýjaður og mikið lagt í kennslustofurnar svo ekki heyrist á milli þeirra.
„Mesta byltingin fyrir tónskólann verður aðstaða fyrir nemendur. Allar kennslustofur settar á flot með fullkomnustu hljóðvörnum. Og svo verður tónskólinn tengdur þessum glæsilega sal þannig að aðstaða til æfinga, námskeiða, lærdóms og tónleikahalds verður alveg upp á tíu. Hér verður glæsilegt samkomu- og menningarhús,“ segir Sigurjón.
Heimild: Ruv.is