Íbúar í Ölfusi höfnuðu áformum um mölunarverksmiðju Heidelberg í Þorlákshöfn í íbúakosningu sem lauk í dag.
Íbúar í Ölfusi greiddu atkvæði um hvort Heidelberg fengi að byggja mölunarverksmiðju í Þorlákshöfn. Íbúakosningin hófst 25. nóvember en lauk formlega klukkan fjögur í dag. Mikill meirihluti hafnaði áformunum, 924 sögðu nei og 374 já, auðir seðlar voru átta og ógildir þrír. Samtals kusu 1310 og kjörsókn var 65,7 prósent.
Fyrirtækið stefndi á efnistöku af hafsbotni úti fyrir Landeyjum. Á annað hundrað störf hefðu getað skapast vegna vinnslunnar en áformin hafa mætt andstöðu vegna áhrifa á umhverfið og fiskistofna.
Meðal þeirra sem höfðu sett sig upp á móti verksmiðjunni er fyrirtækið First Water. Það stefnir á uppbyggingu landeldis fyrir hundrað milljarða á næstu lóð við fyrirhugaða mölunarverksmiðju. First Water segir verksmiðjuna geta stefnt þeim áformum í hættu.
Sveitarstjórn ákvað fyrr á árinu að leyfa bæjarbúum að greiða atkvæði um skipulagið. Íbúakosningin átti að vera í sumar en henni var seinkað eftir að gagnrýni First Water kom fram, þar sem Elliði Vignisson bæjarstjóri sagði að bæjarstjórn þyrfti rými til að bregðast við gagnrýninni.
Heimild: Ruv.is