Home Fréttir Í fréttum Nýr alþjóðaflugvöllur opnaður í Nuuk í dag

Nýr alþjóðaflugvöllur opnaður í Nuuk í dag

18
0
Ný flugstöðvarbygging í Nuuk á Grænlandi. DR – Tobias Hansen

Mikil eftirvænting ríkir í Nuuk, höfuðstað Grænlands, því þar verður nýr alþjóðaflugvöllur opnaður í dag. Flugbrautin er nægilega löng fyrir stórar farþegaþotur.

<>

„Við erum afar glöð,“ segir Regine Dorph Heilmann, íbúi í Nuuk, í samtali við DR, danska ríkisútvarpið, spurð um opnun nýs alþjóðaflugvallar í höfuðstaðnum í dag. „Það munar miklu að geta flogið beint til Nuuk í staðinn fyrir að fara til Kangerlussuaq,“ segir hún.

Byggðu nýja flugstöð og lengdu flugbraut
Framkvæmdir við flugvöllinn í Nuuk hafa staðið síðustu fimm ár. Búið er að byggja nýja flugstöð og lengja flugbrautina. Því verður hægt að lenda og taka á loft á stórum farþegaþotum. Áður höfðu farþegar í mörgum tilfellum, til dæmis á leið til Danmerkur, tekið minni vél frá Nuuk til Kangerlussuaq, sem var upphaflega herflugvöllur, og stóra þotu þaðan á áfangastað. Slíkt gat tekið langan tíma.

Næsta sumar hefst beint flug frá Nuuk til New York. Í dag verður í fyrsta sinn beint flug frá Nuuk til Kaupmannahafnar með flugvél sem tekur um 300 farþega í sæti.

Ný lög um eignarhald í ferðaþjónustu
Fyrirtækjaeigendur búa sig undir fjölgun ferðamanna. Samkvæmt nýjum lögum verða tveir þriðju eignarhlutar í ferðaþjónustufyrirtækjum, hið minnsta, að vera í eigu Grænlendinga. Maren-Louise Kristensen, eigandi Inuk Hostels, segir í samtali við DR að það sé mikilvægt fyrir heimamenn að geta sagt ferðamönnum frá menningu sinni og sögu. Því hafi hún komið á fót miðstöð með það markmið.

Erlendum ferðamönnum á Grænlandi fjölgaði um 36,5 prósent í fyrra miðað við árið 2022 og voru þeir 140.000.

Heimild: Ruv.is