Home Fréttir Í fréttum Bolungavík: 303 m.kr. í framkvæmdir á næsta ári

Bolungavík: 303 m.kr. í framkvæmdir á næsta ári

28
0
Mynd: BB.is

Bæjarstjórn Bolungavíkur hefur samþykkt fjárhagsáætlun fyrir næsta ár 2025. Rekstrartekjur ársins eru taldar verða 1.805 m.kr. Þar af eru útsvar og fasteignaskattur áætlaðar verða 1.035 m.kr. og losa milljarð króna í fyrsta sinn. Frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga koma 410 m.kr. og aðrar tekjur eru 377 m.kr.

<>

Áætlunin gerir ráð fyrir 11 m.kr. afgangi af A og B hluta rekstrar, en 5 m.kr. afgangi af A hluta. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 243 m.kr. á árinu, eða 11,5% af heildartekjum.

Laun og tengd gjöld eru langstærsti útgjaldaliðurinn og verða 1.085 m.kr. Er gert ráð fyrir að launakostnaður sveitarfélagsins aukist um 8,2% á milli áætlanna, en á sama tíma er áætlað að launavísitala hækki um 5,6% á sama tímabili.

Í greinargerð með fjárhagsáætluninni segir að fjárhagsleg staða sveitarfélagsins sé sterk. „Sveitarfélagið stendur vel gagnvert þeim kennitölum sem sveitarfélög og eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga miða alla jafna við. Skuldahlutfall sveitarfélagsins lækkar verulega á milli ára samkvæmt áætluninni og er áætlað að skuldahlutfall sveitarfélagsins haldi áfram að lækka en það var 102% í ársreikningi fyrir árið 2023.“

Til framkvæmda á næsta ári verður varið 303 m.kr. Til þess að ljúka nýrri vatnsveitu eru ætlaðar 60 m.kr. Boraðar voru fleiri borholur í haust og verða þær tengdar vatnveitunni næsta vor. Vatnsveitan verður hins vegar tekin í notkun í næsta mánuði.

Byrjað verður á nýju Lundahverfi næsta vor og eru settar 80 m.kr í verkið. Áfram verður unnið að endurbyggingu Völusteinsstrætis, malbikun og gangstéttarferð og fara 80 m.kr. í það.

Byrjað verður á viðgerðum á Aðalstræti 20-22 (Hvíta húsinu) og verður unnið að málun og múrviðgerðum á næsta ári fyrir 35 m.kr. Áfram veruð unnið að viðgerðum á Grunnskóla Bolungavíkur og eru ætlaðar 14 m.kr. til þess verkefnis.

Til hafnaframkvæmda eru 10 m.kr. í ýmsar viðhaldsframkvæmdir.

Heimild: BB.is