Home Fréttir Í fréttum Sam­staða í Fær­eyjum um að bjóða út Suðureyjargöng

Sam­staða í Fær­eyjum um að bjóða út Suðureyjargöng

25
0
Frá blaðamannafundi á Þinganesi í Þórshöfn í gær þar sem fulltrúar allra flokka á Lögþingi Færeyja undirrituðu samkomulag um Suðureyjargöng. LØGMANSSKRIVSTOVAN

Fulltrúar allra flokka á Lögþingi Færeyja undirrituðu í gær sameiginlega viljayfirlýsingu um Suðureyjargöng með tilheyrandi vegtengingum.

<>

Samtímis var kynnt lagafrumvarp, sem allir flokkar standa á bak við, um stofnun sérstaks félags, P/F Suðuroyartunnilin, um gerð og rekstur ganganna.

Þar er gert ráð fyrir ríflegum stofnframlögum úr landssjóði Færeyja upp á samtals fjóra milljarða íslenskra króna næstu tvö ár.

Jarðgangafélaginu verður heimilt að standa fyrir öllum nauðsynlegum rannsóknum, undirbúa útboð og að bjóða út verkið, samkvæmt frumvarpinu.

Hins vegar verður félaginu ekki heimilt að ganga að neinu tilboði án samþykkis Lögþingsins og þegar nákvæm kostnaðaráætlun liggur fyrir.

Suðureyjargöng verða neðansjávargöng milli Sandeyjar og Suðureyjar með mögulegum legg til Skúfeyjar.
LØGMANSSKRIVSTOVAN

Suðureyjargöng verða þau langlengstu í Færeyjum. Samkvæmt þeirri veglínu, sem frumvarpið miðar við, verða þau 22,8 kílómetra löng og 9,5 metra breið með mögulegri tengingu við Skúfey. Veghalli verður mestur fimm prósent og mesta dýpi 180 metrar.

„Víðtæk pólitísk samstaða er meðal flokka á þingi um að nú sé kominn tími til að taka ákvörðun. Suðurey er eina stóra eyjan sem eftir er, sem hefur ekki fasta tengingu, og auk þess eru samgöngur þangað ótryggar,“ segir meðal annars í viljayfirlýsingunni.

„Stjórnmálaflokkarnir eru sammála um að Suðureyjagöng séu nauðsynleg fjárfesting ef snúa eigi við byggðaþróun á Suðurey og telja einnig að fjárfestingin muni með tímanum hafa jákvæð áhrif á fjárlögin þar sem kostnaður við viðhald og endurnýjun ferjusiglinga muni sparast,“ segir ennfremur.

Aksel V. Johannesen, lögmaður Færeyja, sló þó varnagla á blaðamannafundi í Þórshöfn í gær. Enn væri mikil óvissa um jarðgangaverkefnið.

Vinnu við ítarlegt áhættumat á verkinu væri ólokið. Þótt áætla mætti að göngin gætu kostað í kringum áttatíu milljarða íslenskra króna vissi enginn nákvæmlega hvað þetta risastóra samgönguverkefni myndi í raun kosta.

Heimild: Visir.is