Home Á döfinni Fyrirhugaðar opnanir útboða Íbúakosning um mölunarverksmiðju í Þorlákshöfn aftur á dagskrá

Íbúakosning um mölunarverksmiðju í Þorlákshöfn aftur á dagskrá

23
0
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, segir íbúakosningar vera góða leið til að taka ákvarðanir um stór og veigamikil mál og spáir því að þær eigi eftir að verða algengari á komandi tímum. RÚV – Þór Ægisson

Íbúakosning um mölunarverksmiðju Heidelberg í Þorlákshöfn hefst í lok nóvember. Henni var frestað í vor vegna óvissu um mögulega mengun frá starfseminni.

<>

Íbúakosning í Ölfusi sem var frestað í vor fer fram í lok nóvember. Íbúar kjósa um skipulagsbreytingu í Þorlákshöfn vegna mölunarverksmiðju Heidelberg.

Skoða mögulega ryk-, hljóð- og titringsmengun
„Fyrirtækið First Water reisti varhug varðandi ákveðin efnisatriði,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi. „Nánar tiltekið mögulega rykmengun, mögulega hljóðmengun og mögulega titringsmengun.“

First Water hefur áform um umfangsmikið landeldi í Þorlákshöfn. „Þetta er stór hagaðili hér á svæðinu og við töldum ástæður til að fara yfir forsendur þessa áður en yrði kosið, svona í ljósi rannsóknarreglunnar,“ segir Elliði.

Sveitarfélagið fékk verkfræðistofuna COWI til að rannsaka málið út frá athugasemdum First Water og Eflu til að yfirfara gögnin og útbúa minnisblað sem kynnt verður á íbúafundi.

Íbúakosningar verði algengari í framtíðinni
Íbúakosningin er bindandi. Elliði segir íbúakosningu góða leið til að taka ákvarðanir um veigamikil mál. „Hagsmunir sveitarfélagsins hafa einfaldlega verið framseldir til íbúa þannig að við þurfum bara að gæta þess að kynna gögnin vel fyrir íbúum og gera það á aðgengilegan og skiljanlegan máta.“

Þorlákshafnarbúar þekki málið orðið vel
Áformin voru kynnt á fjórum íbúafundum í vor. Þrjá þeirra hélt Heidelberg til að kynna verkefnið en sá fjórði var á vegum fulltrúa í minnihluta sveitarstjórnar. Þar hélt fólk frá Landvernd og Hafrannsóknastofnun erindi um möguleg umhverfisáhrif.

Elliði segir umræðuna innan sveitarfélagsins yfirvegaða: „Ef ég á að vera ærlegur þá finnst mér þetta ekki mikið rætt í sveitarfélaginu. mér finnst þetta meira rætt allstaðar annarstaðar og kannski þá vegna þess að fólk þekkir illa til málsins.“

Heimild: Ruv.is