Brunavarnarpróf fer fram á Stuðlum á morgun áður en leyfi verður gefið til að opna aftur eftir eldsvoðann. Barnamálaráðherra segir að neyðarvistun fyrir alvarlegustu tilfellin flytjist annað.
Vistheimilið Stuðlar verður opnað á ný á morgun að því gefnu að starfsemin standist brunavarnarpróf og mun starfsfólk taka þátt í því. Húsið er mjög illa farið eftir brunann á laugardaginn. Barnamálaráðherra segir að rýmum fyrir meðferðarvist og neyðarvistun muni fjölga á næstu vikum.
Húsnæðið illa farið
Lokað hefur verið á Stuðlum síðan 19. október þegar eldur kom upp á neyðarvistun svo drengur lét lífið og starfsmaður slasaðist.
Átta voru þá annaðhvort í neyðarvistun eða á meðferðardeild. Húsið er mjög illa farið og verður aðeins hluti húsnæðisins tekinn í notkun en bráðabirgðaviðgerð hefur staðið yfir. Neyðarvistun verður áfram á Stuðlum en annað húsnæði fyrir hana mun bætast við
Þetta er auðvitað nýtt að við séum að takast á við það að vera hér með börn í gæsluvarðhaldi svo vikum og mánuðum skiptir
Ásmundur Einar Daðason, barnamálaráðherra segir neyðarvistun enn verða áfram á Stuðlum en annar staður fyrir þannig vistun flytjist líka annað
„Alvarlegri neyðarvistunin hún mun flytjast annað. Það er húsnæði sem verið er að skoða í tengslum við það og framkvæmdir og markmiðið að í þessari viku þá gangi það líka eftir. “
Fleiri ný úrræði opna
Á svæði Skálatúns í Mosfellsbæ verður fljólega opnað nýtt og opnara vistheimili og auglýst hefur verið eftir forstöðumanni.
Markmiðið er að aðgreina börn og ungmenni betur eftir því hve alvarlegur vandi þeirra er. Ásmundur Einar segir líklegt að nýtt heimili í stað Lækjarbakka á Suðurlandi fyrir drengi í langtímameðferð opni einnig á næstu vikum.
Börnum og ungmennum með alvarlegan hegðunar- eða fíknivanda hefur fjölgað. Á Stuðlum hefur einn drengur verið í gæsluvarðhaldi og annar setið í afplánun.
Nýr veruleiki
„Þetta er auðvitað nýtt að við séum að takast á við það að vera hér með börn í gæsluvarðhaldi svo vikum og mánuðum skiptir svo við þurfum að leysa það líka en það verður leyst með neyðarvistun eða meðferðarúrræðunum samhliða. Barna- og fjölskyldustofa heldur faglega utan um það,“ segir Ásmundur.
Samkvæmt heimildum fréttastofu er það ósk Barna- og fjölskyldustofa að forstöðumaður Stuðla snúi aftur til starfa.
Sendur í leyfið eftir Kveiksþátt
Fram kom í fréttum sjónvarps í kvöld að forstöðumaður Stuðla, Úlfur Einarsson hafi verið í ótímabundnu leyfi eftir brunann 19. októbert. Rétt er að Úlfur var sendur í leyfi eftir að Kveikur fjallaði um málefni Stuðla þann 15. október síðastliðinn.
Heimild: Ruv.is