Home Fréttir Í fréttum Dísilrafstöðvar ganga dag og nótt í nýju hverfi á Akureyri

Dísilrafstöðvar ganga dag og nótt í nýju hverfi á Akureyri

87
0
RÚV – Andrea María Sveinsdóttir

Dísilrafstöðvar ganga allan sólarhringinn í Móahverfi á Akureyri. Þar er hafin bygging á stóru íbúðahverfi, en orkuinnviði vantar.

<>

Í hinu óbyggða Móahverfi á Akureyri ganga dísilrafstöðvar allan sólarhringinn, þar sem ekki tókst að leggja þangað rafmagn í tæka tíð. Kostnaður fyrir hvern verktaka hleypur á milljónum króna.

Á Akureyri er keppst við að reisa ný hverfi. Eitt þeirra er Móahverfið í bænum norðanvestanverðum þar sem verða íbúðir fyrir allt að 2500 manns.

Í fyrravor var samið við fjölda verktaka um byggingu fyrsta áfanga hverfisins og áttu þeir að geta hafist handa í nóvember.

Síðan leið og beið og í sumar voru sumir verktakanna orðnir óþreyjufullir.

Þegar ég byrjaði hérna í ágúst þá vorum við látnir skrifa undir samkomulag við bæinn um að sætta okkur við að það væri ekkert tilbúið. Bæði í gatnagerð og veitumálum. Þegar við byrjum hérna þá er hvorki frárennsli, kalt vatn né rafmagn“, segir Jón Páll Tryggvason, eiganda og framkvæmdastjóri B.E. Húsbygginga.

Þá var annaðhvort að byrja við frumstæðar aðstæður eða bíða enn lengur.

Búið að greiða fyrir rafmagn, götur og gangstéttir
„Inni í gatnagerðargjöldum eiga að vera fullfrágengnar götur, lýsing, gangstéttir, rafmagn, hiti, þetta á allt að vera tilbúið. Það er nánast ekkert af þessu komið “, segir Jón.

Verktakar segjast ekki hafa vitað að staðan yrði þessi fyrr en í ágúst, en forstjóri Norðurorku segir hana hafa átt að vera öllum ljósa.

„Það lá fyrir þegar verktakar fóru hingað inn, að þeir gætu ekki tengst veitunum fyrr en þær væru tilbúnar,“ segir Eyþór Björnsson, forstjóri Norðurorku.

Jón Páll og fleiri keyptu díselrafstöðvar til þess að knýja verk sín áfram, með tilheyrandi kostnaði og mengun.

„Ég er nú búinn að vera í þessum bransa í tuttugu og fimm ár eins og leigubílstjórinn sagði og ég man aldrei eftir svona ástandi.“

Ná líklega að klára á tilsettum tíma af því þeir byrjuðu í sumar
Þeir telja sig þó ná að klára verkið á tilsettum tíma.

„Ég svo sem held við náum því alveg af því við bara fórum af stað eins og fleiri hérna líka. Fleiri verktakar. Við reddum okkur, en þetta er náttúrlega bullandi kostnaður og óþægindi“, segir Jón.

Forstjóri Norðurorku segir óvíst hvenær rafmagn verður tengt inn á hverfið en sagði unnið eins hratt og hægt er. Verktakar halda því á meðan áfram að knýja framkvæmdir með dísilolíu, fyrir hundruð þúsunda á mánuði.

Er klúður hjá ykkur að hafa ekki verið búin að tengja hérna þegar verktakarnir vildu fara af stað?

„Nei, það er ekki klúður, þetta er bara gangur verksins. Við höfum flýtt okkur eins og við getum og vandað okkur. Þeir völdu það að hefja vinnu áður en veitur voru tilbúnar.“

Heimild: Ruv.is