Home Fréttir Í fréttum Nýtt hjúkrunarheimili tekur á sig mynd á Hornafirði

Nýtt hjúkrunarheimili tekur á sig mynd á Hornafirði

69
0
Séð yfir nýja hjúkrunarheimilið á Hornafirði. Nýbygging tengd við eldra hjúkrunarheimili sem einnig verður endurnýjað. RÚV – Rúnar Snær Reynisson

Áratugabið Hornfirðinga eftir nýju hjúkrunarheimili er senn á enda. Sár þörf er á bættri aðstöðu fyrir elstu íbúa sem hafa þurft að búa þröngt og jafnvel í herbergi með ókunnugum.

<>

Nýbygging við hjúkrunarheimilið Skjólgarð hefur tekið á sig mynd en tveir áratugir eru liðnir síðan Hornfirðingum var fyrst lofað nýju hjúkrunarheimili. Það átti svo að vera tilbúið fyrir þremur árum en miklar tafir urðu á að framkvæmdir hæfust.

Fyrsta skóflustungan var loksins tekin í september 2022 en í stórri viðbyggingu verða 20 ný herbergi og áfram 10 herbergi í eldra húsnæði sem einnig verður endurnýjað. Svefnrými aðskilin með þunnum tjöldum heyra þá sögunni til.

Allir fá eigið herbergi
„Byltingin verður fólgin í að þá fá allir sitt eigið herbergi. Við losnum við öll tvíbýli og þá getur hver og einn átti sitt herbergi og sitt klósett án þess að þurfa að deila með öðrum.

Að sama skapi ef það koma upp einhverjar sýkingar þá erum við með fá klósett sem margir þurfa að deila og þá er erfitt að einangra fólk í svona tvíbýlum alls staðar. Við erum bara með tvö einbýli eins og staðan er í dag,“ segir Matthildur Ásmundardóttir, skrifstofustjóri Vigdísarholts sem rekur Skjólgarð.

Ríkið greiðir stærstan hluta og sveitarfélagið tæpan fjórðung. Talsvert er lagt í nýja hjúkrunarheimilið og að umhverfið verði öruggt og byggingin umlykur eins konar innigarð.

Aðsend mynd / Sveitarfélagið Hornafjörður

Tölvumynd af innigarðinum í Skjólgarði.

Nýbyggingin umlykur innigarð
„Hér verður hægt að labba inn út öllum rýmum eða sem sagt úr þessum tveimur heimilum sem verða hérna í þessari nýbyggingu.

Og þá er garðurinn aflokaður og hægt að njóta útiveru þegar vel viðrar og vonandi oftar en það. Héðan frá hjúkrunarheimilinu eru við með útsýni yfir alla jöklana sem koma út frá Vatnajökli, skriðjöklana og fjallasýn. Þetta verður algjör sælureitur,“ segir Matthildur.

Einhverjar tafir hafa verið á framkvæmdinni sem átti að verða tilbúin fyrir áramót en vonir standa til að nýbyggingin komist í gagnið á fyrri helmingi næsta árs og síðan verði farið í að endurnýja eldra húsnæði Skjólgarðs.

Heimild: Ruv.is