Framkvæmdir eru nú hafnar við Reykjaböðin, ný náttúrböð í Reykjadal við Hveragerði. Auk baðanna á að byggja upp miðstöð fyrir vinnustofur, ráðstefnusali, veitingastað og gistirými fyrir um 180 manns í fjölda skála á svæðinu. Framkvæmdirnar eru nú þegar full fjármagnaðar.
Það er engin lognmolla í Reykjadal við Hveragerði en þar er hafin mikil uppbygging, sem þýðir þegar allt er búið að þá er reiknað með að þangað komi um 700 þúsund ferðamenn árlega en í dag koma um 400 þúsund ferðamenn í Reykjadal, enda staðurinn mjög vinsæll fyrir náttúrufegurð sína.
En nú á að spýta enn frekar í og byggja upp í viðbót glæsilega aðstöðu á svokölluðu Árhólmasvæði við rætur Reykjadals.
„Reykjaböðin eru ný náttúrböð, náttúrulón, sem er eins og hefur komið fram, fullfjármagnað verkefni í kringum þúsund fermetra lón með síðan tilheyrandi mannvirkjum.
En það sem á eftir að koma síðan er gisting í kringum 50 til 70 svona kofar og svo erum við líka að tala um viðburðarými og sali fyrir hópa og viðburði,” segir Brynjólfur J. Baldursson, stjórnarformaður Reykjadalsfélagsins.
Brynjólfur segir að Reykjaböðin munu bjóða upp á fjölda nýjunga sem ekki hafa áður sést á Íslandi en svæðið er einstaklega vel staðsett því mikill jarðhiti er á svæðinu og því gott aðgengi að heitu vatni. Og ekki spillir staðsetningin fyrir, stutt frá Reykjavík og við upphaf Gullna hringsins.
Bæjarstjóri Hveragerðisbæjar er fullur tilhlökkunar fyrir verkefninu.
„Við erum náttúrulega ótrúlega spennt fyrst og fremst fyrir svona viðamikilli uppbyggingu. Verkefnið er metnaðarfullt og vel hannað og í raun og veru er þetta svona ákveðið fyrirmyndar verkefni hvernig sveitarfélög og einkageirinn geta komið saman og unnið og þróað svona verkefni þangað til allir eru sáttir,” segir Pétur Georg Markan, bæjarstjóri.
Og eitt af því allra vinsælasta í Reykjadal í dag er að svífa niður kambana og inn í dalinn og njóta fallegs útsýnis á meðan.
Heimild: Visir.is