Home Fréttir Í fréttum Útboðsstopp staðið í heilt ár meðan vegirnir grotna niður

Útboðsstopp staðið í heilt ár meðan vegirnir grotna niður

99
0
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Arnar Halldórsson

Uppsagnir eru hafnar í verktakageiranum vegna verkefnaskorts í jarðvinnu. Ekkert stórt verk hefur verið boðið út hjá Vegagerðinni í heilt ár.

<>

Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að frá því þverun tveggja fjarða á Vestfjarðavegi í Gufudalssveit var boðin út í byrjun september í fyrra hafi ekkert stórt útboð verið auglýst hjá Vegagerðinni.

„Vegagerðin boðaði framkvæmdir upp á 32 milljarða í ár. En hins vegar hafa engin stór verkefni á þeirra vegum verið boðin út síðan haustið 2023,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Fyrri áfangi í þverun í Gufufjarðar og Djúpafjarðar var síðasta stóra útboðsverk Vegagerðarinnar. Sjálf brúasmíðin er í salti.
Egill Aðalsteinsson

Verktakar sem sátu útboðsþing í byrjun ársins væntu mikils þegar þáverandi innviðaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, þuldi upp stórverkin sem átti að fara í á þessu ári.

Hann nefndi breikkun Kjalarnesvegar að Hvalfjarðargöngum, áframhaldandi endurbyggingu Vestfjarðavegar, bæði að halda áfram á Dynjandisheiði og hefja brúasmíði yfir Gufufjörð og Djúpafjörð, og loks nefndi ráðherrann Norðausturveg um Brekknaheiði. Ekkert þessara verka er farið í útboð.

Frá Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins þann 30. janúar síðastliðinn.
Sigurjón Ólason

Samtök iðnaðarins segja samdráttinn farinn að bitna á jarðvinnu- og malbiksverktökum. Þar séu uppsagnir hafnar.

„Við erum að sjá dæmi, bara til dæmis á Vestfjörðum, þar sem á þriðja tug starfsmanna var sagt upp vegna verkefnastöðu. Og þannig held ég að þetta geti orðið um allt land, ef ekkert verður að gert,“ segir Sigurður Hannesson.

Hann segir að verktakar gætu misst fólk sem búi yfir reynslu og þekkingu sem samfélagið þurfi á að halda við að byggja upp innviði landsins.

„Og þetta auðvitað gerist á sama tíma og uppsöfnuð viðhaldsþörf í vegakerfinu er í kringum tvöhundruð milljarða,” segir talsmaður iðnaðarins.

Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri segir engar ákvarðanir hafa verið teknar um hvenær útboð stórra verka hefjast á ný hjá Vegagerðinni.
Arnar Halldórsson

Vegamálastjóri hafnaði ósk um viðtal í gær um það hvenær mætti vænta þess að útboð stærri verka hæfust á ný. Sagði aðeins að engar ákvarðanir hefðu verið teknar.

En hefur framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins skilning á því hjá ríkinu að það hafi bara ekki fjármuni eða vilji slá á þenslu?

„Það eru auðvitað margar leiðir til að slá á þenslu. Við megum ekki gleyma því að ástand vega er víða bágborið, þannig að eftir margra ára skeið þar sem viðhaldi hefur ekki verið sinnt sem skyldi, þá er ekki annað í boði heldur en að fjárfesta og ráðast í úrbætur,“ segir Sigurður Hannesson.

Heimild: Visir.is