Lögreglustjórinn á Suðurnesjum segir ekki öruggt að hleypa fólki inn í íþróttamannvirki Grindavíkurbæjar. Enn er talin töluverð hætta á jarðfalli og sprunguhreyfingum í bænum.
Ekki er öruggt að hleypa fólki inn í íþróttahúsið í Grindavík miðað við ástand þess í dag. Í tilkynningu frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum segir að það verði ekki hægt nema húsið verði metið öruggt af þar til bærum aðilum. Landris er hafið á ný í Svartsengi og kvika að safnast fyrir þar undir.
Bæjarráð Grindavíkur fundaði í síðustu viku og lagði áherslu á að bærinn yrði opnaður almenningi sem fyrst og að lokunarpóstar yrðu aflagðir í núverandi mynd.
Í fréttum Stöðvar 2 í gær sagði Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar og áheyrnarfulltrúi í bæjarráði, að mikið aðdráttarafl verði fyrir ferðamenn í Grindavík í framtíðinni. Athuga á hvort breyta eigi íþróttahúsinu í safn um jarðhræringarnar.
Ásrún Helga sagði þá sem hafa farið inn í íþróttahúsið segja það ótrúlega upplifun þar sem sprunga liggur í gegnum það mitt.
Töluverð hætta á jarðfalli og sprunguhreyfingum í Grindavík
Í tilkynningu lögreglustjórans segir að enn sé talin töluverð hætta á jarðfalli ofan í sprungur í Grindavík og sprunguhreyfingum. Unnið sé að því að gera bæinn öruggan fyrir gesti og gangandi en á sama tíma þurfi að hafa í huga að loka geti þurft akstursleiðum þar vegna aðsteðjandi hættu án nokkurs fyrirvara.
Með aukinni hættu á eldgosi sé vandséð að unnt verði að tryggja öryggi fólks með fullnægjandi hætti. Aðstæður eru og verða áfram krefjandi í og við Grindavík fyrir viðbragðsaðila. Lögreglustjórinn minnir á að einstaklingar sem fara inn á svæðið eru á eigin ábyrgð.
Áhættumat fyrir þéttbýli í Grindavíkurbæ er í vinnslu. Framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ vinnur að því í samvinnu við ríkislögreglustjóra. Í tilkynningunni segir að lögreglustjórinn voni að það mat líti dagsins ljós fljótlega.
Heimild: Ruv.is