Home Fréttir Í fréttum Mikil sprengivinna við gerð snjóflóðavarna í Neskaupstað

Mikil sprengivinna við gerð snjóflóðavarna í Neskaupstað

71
0
Allt að 60 holur fylltar sprengiefni eru tengdar saman með sprengivír. RÚV – Rúnar Snær Reynisson

Íbúar í Neskaupstað búa við sprengidrunur næstu misseri en framkvæmdir við lokaáfanga snjóflóðavarna eru hafnar. Hús eru vöktuð með skjálftamælum til að tryggja að þau skemmist ekki í látunum.

<>

Framkvæmdir eru hafnar við síðasta áfanga snjóflóðavarna í Neskaupstað. Íbúar þurfa að búa við reglulegar sprengingar næstu misseri enda þarf mikið grjót í garða og keilur.

Í Neskaupstað hafa verið reistar miklar snjóflóðavarnir ofan við bæinn og var ákveðið að flýta framkvæmdum við fjórða áfanga eftir að snjóflóð féllu á hús í bænum í mars í fyrra.

Nú eru verktakar Héraðsverks mættir og í morgun var verið að undirbúa sprengingu ofan við Drangagilsgarð til að losa efni í framkvæmdina. Holurnar eru hreinsaðar með sugu áður en sprengiefninu er komið fyrir. Það gerir sjálfur sprengistjórinn en það þykir virðulegt embætti að tryggja að fyllsta öryggis sé gætt.

Nota bæði dínamít og ammóníum nítrat

„Hér erum við að bora sex metra holur og það fara svona fimmtán kíló af sprengiefni í hverja holu. Við notum dínamít ef það er vatn í holunum en annars notum við ammóníum nítrat.

Við erum með sextíu holur yfirleitt í einu. Það er passlegur dagskammtur. Við erum búnir að tímaraða holunum og það springur ein í einu. Þetta verður mjög vægt og þægilegt en klöppin lyftist upp um þrjá metra kannski,“ segir Kristján Berg Árnason, sprengistjóri hjá Myllunni.

Ofan á sprengiefnið í holunum er sandi þjappað sem virkar svipað og forhleðsla en stundum dugar það ekki og þá blása holurnar sem kallað er og þá getur grjót tekist á loft.

Gefa hljóðmerki og rýma fyrir sprengingu

„Það verður náttúrlega heilmikið ónæði af þessu á meðan á framkvæmdum stendur og við þurfum að sprengja töluvert mikið magn af efni til að nýta í varnirnar. Í sambandi við þessa sprengivinnu er mikilvægt að fólk haldi sig fjarri.

Við gefum hljóðmerki og rýmum svæðið. Þetta er hættulegt. Við þurfum að halda okkur innan ákveðinna marka í titring í sambandi við sprengingarnar og við setjum upp mæla sem mæla hristinginn á húsunum sem eru næst sprengingunni. Við lesum af þeim og pössum að halda okkur innan allra marka,“ segir Viðar Hauksson, verkstjóri hjá Héraðsverki.

Fyrstu keilurnar fara strax að verja húsin sem urðu fyrir flóðum

Verkið á að kosta 3,2 milljarða. Varnargarðurinn verður yfir 800 metra langur og ofan hans keilur. Byrjað verður á keilum fyrir ofan Starmýri þar sem flóðin féllu í fyrra.

„Þegar við erum búnir að setja upp fyrstu keilurnar þá fara þær í raun að virka strax. En í sjálfu sér verður þetta ekki komið í fulla virkni fyrr en framkvæmdum er lokið, sem er árið 2029,“ segir Viðar.

Heimild: Ruv.is