Home Fréttir Í fréttum Velta dregst saman í helmingi at­vinnu­greina

Velta dregst saman í helmingi at­vinnu­greina

90
0
Ljósmynd: Haraldur Guðjónsson

Sam­kvæmt Hag­stofu Ís­lands dróst velta saman í tæp­lega helmingi at­vinnu­greina í maí til júní 2024 og í meiri­hluta greina var vöxturinn undir verð­bólgu tíma­bilsins, 6,0%.

<>

Af 12 stærstu at­vinnu­greinum landsins jókst velta um­fram verð­bólgu í einungis tveimur greinum: fast­eigna­við­skiptum og tækni- og hug­verka­iðnaði.

Í öðrum helstu greinum var einnig mjög lítill vöxtur og minnkaði velta í heild­verslun, fram­leiðslu málma og sölu á vél­knúnum öku­tækjum.

Raun­sam­dráttur varð því í flestum at­vinnu­greinum hag­kerfisins í maí og júní.

Velta í fast­eigna­starf­semi hélt á­fram að aukast eða um alls 14% og reyndist 28 milljarðar króna á tíma­bilinu. Megin­þorra hækkunarinnar mátti líkt og áður rekja til leigu at­vinnu­hús­næðis en þó var einnig veru­leg aukning í fast­eigna­miðlun.

„Ó­líkt undan­förnum misserum var ekki sam­bæri­legur vöxtur í bygginga­starf­semi og mann­virkja­gerð en velta í þeim greinum jókst um einungis 4% á milli ára; 5% vöxtur var í byggingu hús­næðis og þróun byggingar­verk­efna, 3% í sér­hæfðri bygginga­starf­semi og 8% sam­dráttur í mann­virkja­gerð,“ segir í skýrslu Hag­stofunnar.

Skjáskot af Vb.is

Velta í ferða­þjónustu var sömu­leiðis lítil og mældist 189 milljarðar króna sem var einungis 4% aukning miðað við sama tíma árið 2023.

Tölu­verður vöxtur var þó í far­þega­flutningum með flugi sem jókst um 14% en einnig var vöxtur í þjónustu hjá ferða­skrif­stofum um ferða­lög er­lendis sem nam 15%.

„Sam­dráttur var hins vegar í öðrum ein­kennandi greinum ferða­þjónustunnar, til dæmis í far­þega­flutningum á landi (-14%), rekstri gisti­staða (-5%), leigu á öku­tækjum (-3%) og þjónustu tengdum ferða­lögum innan­lands (-1%). Velta var ó­breytt á milli ára í veitinga­sölu- og þjónustu.“

Lyfjaframleiðsla eykst gríðarlega
Sam­hliða öllu þessu var sam­dráttur í helstu út­flutnings­greinum landsins. Velta í fram­leiðslu málma hélt á­fram að dragast saman eða um 8% miðað við sama tíma­bil fyrir ári. Heims­markaðs­verð á áli hækkaði ör­lítið á milli tíma­bila auk þess sem gengi krónunnar var á svipuðu reiki og árið áður.

Sam­dráttinn í veltu ál­fyrir­tækja mátti því heldur rekja til minni magnsölu. Þá dróst velta í sjávar­út­vegi saman um rúm­lega 2% (50% vöxtur var í fisk­eldi miðað við fyrra ár en vegna smæðar fisk­eldis miðað við sjávar­út­veg var saman­lögð aukning veltu í sjávar­út­vegi og fisk­eldi einungis tæp­lega 1%).

Í tækni- og hug­verka­iðnaði var já­kvæður raun­vöxtur eins og í fast­eigna­starf­semi en alls jókst velta um 8% í tækni­greinunum miðað við fyrra ár. Þrátt fyrir á­gætan heildar­vöxt var dreifingin innan at­vinnu­greina­hópsins mis­jöfn.

Mest jókst velta í meðal- og há­tækni­fram­leiðslu, eða um 20%, sem mátti einkum rekja til aukinnar lyfja­fram­leiðslu og fram­leiðslu á tækjum og vörum til lækninga. Sam­dráttur upp á 24% var hins vegar í fram­leiðslu á tölvu-, raf­einda- og optískum vörum.

Sala á vél­knúnum öku­tækjum hélt á­fram að dragast saman eða um 36% (29% séu við­hald og við­gerðir öku­tækja talin með).

Sam­dráttur var einnig í heild­verslun um 2% sem rekja mátti til minni virkni í byggingar­starf­semi en alls dróst velta saman um 4% í heild­verslun með timbur og byggingar­efni og um 7% í heild­verslun með járn­vöru og lagna­vörur.

Smá­sölu­verslun óx ögn betur eða um 5% þar sem velta hjá stór­mörkuðum, mat­vöru- og lyfja­verslunum jókst nokkurn veginn í sam­ræmi við verð­bólgu, eða á bilinu 6-7%. Sam­dráttur upp á 2% var hins vegar hjá sér­verslunum með fatnað og skó.

Loks var ó­breytt velta hjá bygginga­vöru­verslunum (sem jafn­gilti nei­kvæðum raun­vexti upp á -6%).

Heimild: Vb.is