Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Unnið í alla nótt og allt sam­kvæmt á­ætlun

Unnið í alla nótt og allt sam­kvæmt á­ætlun

36
0
Við framkvæmdir í nótt. Veitur

Framkvæmdir við hitaveitutengingu, sem haft hafa í för með sér umfangsmestu heitavatnslokun sögunnar, eru á áætlun og miðar vel, að sögn forstöðumanns hjá Veitum. Óvenjumikið hefur verið að gera í sundlaugum utan lokunarsvæðisins í morgun.

<>

Lokað var fyrir heitt vatn í Kópavogi, Breiðholti, Hafnarfirði, Garðabæ og víðar um klukkan tíu í gærkvöldi og strax hafist handa við tengingu á flutningsæðinni. Unnið var í alla nótt.

„Það hefur bara gengið nokkurn veginn samkvæmt áætlunum. Einhver verkefni eru þegar að komast í höfn og önnur sem var fyrirséð að hefðu lengri framkvæmdatíma eru eðlilega enn í vinnslu.

Stærsti og mikilvægasti hluturinn er við Suðuræð þar sem við erum að tengja hana, nýja Suðuræð, inn í kerfið okkar. Síðan erum við að vinna í öðrum hluta kerfisins eins og uppi á Reynisvatnsheiði og Vetrarmýri og á nokkrum fleiri stöðum,“ segir Hrefna Hallgrímsdóttir, forstöðumaður vatnsmiðla hjá Veitum.

Engar tilkynningar um tjón eða önnur vandræði hafi borist Veitum það sem af er degi og ekkert komið upp á við framkvæmdir.

„Eins og staðan er núna reiknum við með því að verkið verði á áætlun og það verði komið heitt vatn í kringum hádegisbil á morgun.“

Sundlaugar eru víða lokaðar í dag vegna heitavatnsleysisins og í Laugardalslaug, sem stendur opin, var óvenjumikið að gera í morgun, að sögn Birnu Rúnar Kolbeinsdóttur, starfsmanns. „Við héldum að það væri ættarmót,“ sagði Birna í samtali við Vísi. Og Snorri Örn Arnaldsson forstöðumaður Sundhallar Reykjavíkur segir að þar á bæ hafi einnig verið óvenjumargt um manninn fyrir hádegi.

„Hvort það sé heitavatnsleysið eða sumar í dauðateygjunum veit ég ekki. En það er búið að vera góð aðsókn hjá okkur í morgun og við búumst alveg við að það verði talsvert meira þegar líður á daginn. Það eru öll velkomin í Sundhöll Reykjavíkur.“

Heimild: Visir.is